Mæðgurnar Heiða Björg og Ey­gló Scheving kalla eftir því að erfða­lögum á Ís­landi verði breytt eða þau tekin til endur­skoðunar. Heiða Björg hefur frá því að sam­býlis­maður hennar, Páll Magnús Páls­son, eða Maddi eins og hann var kallaður, lést skyndi­lega í júlí árið 2019, átt í deilum við fjögur af sex syst­kinum hans um rétt sinn til helmings eigna þeirra og réttinn til að búa á­fram á sam­eigin­legu heimili þeirra.

Heimilið er að Hvassa­felli á Suður­landi og var upp­runa­lega í eigu for­eldra Páls Magnúsar. Hann keypti það svo af þeim með einum bræðra sinna og á endanum keypti hann bróður sinn út og átti landið einn þegar hann kynntist Heiðu Björgu.
Á sam­búðar­tíma þeirra, sem hófst árið 2005, var mikil upp­bygging á bænum og mikið af skuldum greitt niður. Þá hófu þau ferða- og veitinga­þjónustu og er á landinu rekinn veitinga­staðurinn Gamla fjósið, auk þess sem hægt er að leigja sumar­hús.
85 prósent eignanna voru skráð á Pál Magnús, það er jörðin, heimilið og veitinga­staðurinn, en sam­kvæmt niður­stöðu dóms í máli þeirra er skýrt að fjár­hagur þeirra og eignir voru sam­eigin­legar þegar það er skoðað nánar.

Að sögn Ey­glóar og Heiðu Bjargar ætluðu þau alltaf að skrá eignirnar þannig að þær væru skráðar á þau bæði en þeim láðist að gera það í amstri dagsins. Þau voru ekki gift og sam­kvæmt erfða­lögum, vegna þess að for­eldrar hans voru látnir og hann átti ekki börn, erfðu syst­kini Páls hann, en ekki Heiða Björg.

Náðu ekki að gifta sig

„Þau voru búin að á­kveða að ganga í hjóna­band á 60 ára af­mæli mömmu 20.06.20 en svo fór sem fór. Það var því ekki konan sem hann elskaði og var búinn að skapa fal­legt líf með sem erfði hann, ekki sú sem hann kyssti og faðmaði alla morgna í eld­húsinu þeirra, ekki sú sem hélt utan um hann og var með honum öllum stundum og á dánar­beðinum. Ekki sú sem skipu­lagði og borgaði fyrir jarðar­förina hans, ekki sú sem situr ein eftir og syrgir manninn sinn og lífið þeirra saman,“ segir Ey­gló.

Heiða Björg segir að hún sé mjög leið yfir því að málið hafi þurft að fara alla þessa leið og yfir fram­komu syst­kina eigin­manns síns.

„Til að gera langa sögu stutta þá missti yndis­lega móðir mín, sumarið 2019, ástina í lífi sínu og sam­býlis­mann þegar Maddi lést eftir skyndi­lega blæðingu í heila, hann lá á gjör­gæslu í tvær vikur en komst aldrei aftur til með­vitundar. Maddi og mamma höfðu búið saman í um 13 ár. Með gífur­lega mikilli, stans­lausri vinnu byggðu þau saman upp blómstrandi ferða­manna­þjónustu og ráku myndar­legt mjólkur­bú. Þau voru sam­stíga og ást­fangin,“ segir Ey­gló í færslu sem hún skrifaði um málið á Face­book, eftir að niður­staða kom í málinu þann 9. mars síðast­liðinn í Héraðs­dómi Suður­lands. Niður­staðan hefur verið kærð til Lands­réttar.

Á rétt á helmingi eigna

Heiða Björg á, sam­kvæmt niður­stöðunni, rétt á helmingi allra eigna sem skráðar eru í dánar­bú sam­býlis­manns hennar. Í niður­stöðu héraðs­dóms er farið ítar­lega yfir eignir þeirra við upp­haf sam­bandsins og svo þegar Maddi skyndi­lega lést. Í niður­stöðunni segir að greini­legt sé að á sam­búðar­tíma þeirra hafi orðið „mikill við­snúningur á fjár­hags­stöðu hans“. Þau tóku gamalt fjós í gegn á landi hans og breyttu því í veitinga­hús. Þá kemur fram að þrátt fyrir að þau hafi talið fram hvort í sínu lagi þá hafi fjár­hagur þeirra verið al­ger­lega sam­ofinn.

„Það sem ég er mest pirruð yfir er að lögin eru þannig að þau eru erfingjar af því að við erum ekki gift. Sam­kvæmt því geta þau bara á einni nóttu um­turnað mínu lífi og ég get ekkert gert í því fyrr en það er búið að dæma hvað ég á mikið í þessu,“ segir Heiða Björg.

Hún segir að það sé eitt að ekki sé erfða­réttur þegar fólk er ekki gift og að hún hafi þurft að sækja réttinn, en telur líka galla á kerfinu birtast í því að meðan á málinu stóð hafi ekki verið setti stopp á skiptin.

Reyndi að semja

Ey­gló, dóttir Heiðu Bjargar, segir að mamma hennar hafi leitað allra leiða til að semja við syst­kinin og sent þeim mótaðar sátta­til­lögur sem var hafnað. Í þeim til­lögum var gert ráð fyrir að erfingjar fengju allan kvóta, fjós, gamla húsið og stærsta hluta landsins. Heiða Björg vildi fá veitinga­húsið sem hún stofnaði með Páli Magnúsi, og rekur, heimili þeirra og land­skika með. Þeirri til­lögu var al­farið hafnað af syst­kinunum.

Ey­gló segir missi þeirra að sjálf­sögðu hafa verið mikinn en að snemma í ferlinu hafi komið í ljós að ekki var mikill samnings­vilji á meðal þeirra, sem Heiða Björg tekur undir. Hún hafi alltaf vitað að syst­kinin myndu erfa hann og það þyrfti að greiða niður skuldir og fara yfir málin eins og nauð­syn er þegar manneskja fellur frá.

„Ég vissi alveg að þau myndu erfa hann en ég vissi líka að ég ætti ein­hvern rétt hérna,“ segir Heiða Björg og segir að sorgin hafi ekki fengið að komast að meðan á þessu máli stendur.

„Þetta er búið að her­taka líf mitt í eitt og hálft ár.“

Heiða Björg segir að hún sé leið að málið hafi þurft að fara alla þessa leið.
Fréttablaðið/Anton Brink

Reyndu að láta bera hana út

Í bréfi sem syst­kinin sendu Heiðu Björgu í októ­ber eftir að Páll Magnús lést kemur fram að hún sé ekki lög­erfingi hans en hafi frá and­láti hans búið í fast­eign hans. Þar segir að til að greiða niður skuldir dánar­búsins sjái þau ekki aðra leið en að selja allar eignir búsins og að hún þurfi því að fara. Þetta er að­eins um átta vikum eftir and­látið.

„Þá sá mamma mín fram á annað á­fall, að missa ekki að­eins manninn sinn heldur í ofan­á­lag heimili sitt og lífs­viður­væri,“ segir Ey­gló. Hún segir að það eina sem móðir hennar hafi getað gert í þessari stöðu hafi verið að sækja mál á hendur dánar­búinu og fara fram á að sam­búð þeirra yrði gerð upp. Þannig gat hún farið fram á að fá 50 prósent af sam­eigin­legri eigna­myndun þeirra á meðan þau bjuggu saman. Ey­gló gagn­rýnir lítinn samnings­vilja syst­kinanna og að þeirra boð hafi á­vallt gert ráð fyrir að hún fengi ekkert.

„Þau hefðu alveg getað boðið henni 30 prósent eða ein­hverja aðra tölu, en krafa þeirra var alltaf að mamma fengi ekkert,“ segir Ey­gló.

Hún segir málið hafi tekið mikið á móður sína ofan á þá miklu sorg sem hún upp­lifði við að missa maka sinn skyndi­lega.

Heiða Björg segir að sam­bandið hafi alltaf verið gott við syst­kinin á meðan Páll Magnús lifði, þó svo að það hafi kannski ekki verið mikið.

„Ég átti bara ekki von á þessu,“ segir Heiða og bætir við að stuttu eftir and­látið hafi bræður hans mætt og tekið alls kyns verk­færi og tæki úr húsum og hún hafi þá ekki verið í neinu standi til að takast á við þá um það.

Eygló segir að allir málsaðilar séu fórnarlömb úreltra erfðalaga.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ey­gló segist vonast til þess að móðir hennar geti nú horft fram á við í nýjum veru­leika. Hún segir alla aðila málsins, sama um hvern ræði, vera fórnar­lömb úr­eltra erfða­laga og að þegar fjöl­skyldan hefði átt að standa saman hafi hún tvístrast.

„Erfða­lögin eru aug­ljós­lega ekki í takt við raun­veru­leika nú­tímans. Finnst ein­hverjum þetta eðli­legt? Hve­nær á að breyta þessu?“ spyr Ey­gló og bætir við að til­gangur hennar með því að vekja at­hygli á þessu sé ekki að fara á norna­veiðar. Henni þyki nauð­syn­legt að vekja at­hygli á mögu­lega úr­eltum lögum og þeim á­hrifum sem þau geta haft á fólk sem er ný­búið að upp­lifa missi.

„Það þarf svo að breyta þessu,“ segir hún að lokum.

Þá sá mamma mín fram á annað á­fall, að missa ekki að­eins manninn sinn heldur í ofan­á­lag heimili sitt og lífs­viður­væri

Ekki ein­falt penna­strik

Hrefna Frið­riks­dóttir, prófessor við laga­deild Há­skóla Ís­lands, segir fulla á­stæðu til að skoða réttar­stöðu fólks í ó­vígðri sam­búð en hún hefur skrifað mikið um það og rann­sakað réttar­á­hrifin, bæði hvað eigi við þegar fólk er að skilja og þegar annar aðili lætur lífið. Hún segir það þó alls ekki til­viljun að munurinn sé svo mikill á milli fólks í hjú­skap og í ó­vígðri sam­búð. Lögin voru sett árið 1962 og hafa ekki verið endur­skoðuð síðan þá.

Hrefna segir að það sé ekki tilviljun að erfðarétturinn fylgi í hjúskap en ekki sambúð.
Fréttablaðið/Eyþór

„Þar hef ég alltaf hvatt til þess að þetta sé skoðað vand­lega. Þetta hefur í sjálfu sér lítið sem ekkert verið skoðað en það er ekki til­viljun að þetta er svona. Stefnu­yfir­lýsing hefur alltaf verið að gera greinar­mun á hjú­skap og sam­búð og rökin hafa verið þau að leyfa fólki að velja, að velja hjú­skap sem er meira skuld­bindandi og miklu skýrari hvað varðar reglur, réttindi og skyldur. Svo er sam­búð ó­form­legri og opnari og það hefur verið rétt­lætt með því að fólk geti valið, meðal annars valið að gera ráð­stafanir ef það kærir sig um það, þá sér­stak­lega sam­búðar­fólk,“ segir Hrefna.

Hrefna segir að fólk sem er í sam­búð geti gert erfða­skrá en sam­búðar­fólk geti þó aldrei tryggt sér sam­bæri­legan rétt og fólk sem er í hjú­skap á sam­kvæmt lögum.

„Það getur tryggt rétt sinn að ein­hverju marki,“ segir Hrefna.

„Vandinn er sá að það er auð­velt að segja þetta. Að fólk geti valið sér fjöl­skyldu­form, hjú­skap eða sam­búð og það eigi að átta sig á muninum. Það er of­boðs­lega auð­velt að segja þetta en svo veit maður á móti að í allt of ríkum mæli þá gerir fólk þetta ekki og gerir ekkert af þessu,“ segir Hrefna.

Hún segir fólk al­mennt illa upp­lýst um muninn og sé ekki að taka á­kvarðanir um hvort það sé í sam­búð eða hjú­skap byggt á þessum réttindum sem það fær eða fær ekki.

„Það er ekkert endi­lega að velja þetta út frá þessum reglum. Það er að velja þetta út frá ein­hverju allt öðru,“ segir Hrefna.

Svo eru fáir að hugsa um dauðann?

„Svo er það nú það. Það virðast fáir gera erfða­skrá og maður sér vissa til­hneigingu til að ýta því á undan sér eða draga það,“ segir Hrefna sem segir að það kveiki þá á spurningum til lög­gjafans um hvort hann vilji marka nýja stefnu.

„Þá þarf að skoða hvort við viljum miða við eitt­hvað annað. Við höfum verið að miða við þessa megin­reglu, um frjálsan vilja og val og við þurfum að skoða hvort við eigum að miða við eitt­hvað annað. Hvort við miðum við ein­hvers konar vernd eða hvort það séu til reglur sem grípa fólk í á­kveðnum að­stæðum. Ef við veljum það er það ekkert endi­lega klippt og skorið hvernig við út­færum það. Það eru sumir sem halda að þetta sé ein­falt penna­strik. Að það sé yfir­sjón að það sé ekki erfða­réttur í sam­búð og það sé hægt að kippa því í liðinn með ein­földu penna­striki, en það er það nú samt ekki. Sam­búð og hjóna­band er ekki það sama og fólk er ekki að velja það á sömu for­sendum,“ segir Hrefna.

Vandinn er sá að það er auð­velt að segja þetta. Að fólk geti valið sér fjöl­skyldu­form, hjú­skap eða sam­búð og það eigi að átta sig á muninum. Það er of­boðs­lega auð­velt að segja þetta en svo veit maður á móti að í allt of ríkum mæli þá gerir fólk þetta ekki og gerir ekkert af þessu

Viljum kannski ekki að erfða­rétturinn fylgi í sam­búð

Hún segir að ef til vill myndi fólki í sam­búð ekki hugnast það að erfða­rétturinn fylgi frá fyrsta degi.

„Sam­búð er fjöl­breyttari en hjú­skapurinn,“ segir Hrefna og bendir á að ef það eigi að móta nýjar reglur um sam­búð þurfi að á­kveða hvers konar sam­búð það eigi að gilda um, það þurfi að af­marka það.

„Svo stökkvum við ekki til og á­kveðum að eitt­hvað eitt gildi bara við and­lát. Það þarf að fá skýrari heildar­mynd. Hvernig er stofnað til sam­búðar, hvaða á­hrif það hafi ef henni er slitið og ef annað fellur frá. Það væri eðli­legast að skoða heildar­myndina,“ segir Hrefna.

Hún segir að mun fleiri mál komi upp þegar fólk er að slíta sam­búð en þegar annað þeirra fellur frá.

„Þar sjáum við þennan við­varandi mis­skilning sem fólki tekst oft illa að leysa. Sjónar­miðin eru mjög mats­kennd, fólk hefur ó­líkar væntingar um hvernig eigi að haga fjár­hags­legu upp­gjöri og leitar oft til dóm­stóla. Það er ekki ó­svipað þessu máli,“ segir Hrefna og vísar til máls Heiðu Bjargar.

Hún segir að niður­staðan í máli Heiðu Bjargar, ef hún stendur, sé eins og góð og hún getur verið, miðað við lögin.

„Ég hef aldrei slegið því föstu að þetta sé allt úr­elt og það sé hand­vömm að það sé ekki búið að breyta þessu með á­kveðnum hætti. Ég hef bent á að lög­gjafinn mótaði þetta fyrir löngu síðan, það er að fólk eigi að geta valið sér fjöl­skyldu­form með til­tekin réttar­á­hrif. Ég tel að það sé fullt til­efni til að meta þetta aftur. Það kann að vera að lög­gjafinn á­kveði samt sem áður að það sé besta leiðin að byggja á­fram á því að fólk hafi val,“ segir Hrefna en segir að það gæti þá verið á­kveðið að fara í átak til að kynna það betur hvað fólk er raun­veru­lega að velja þegar það velur sam­búð í stað hjú­skapar.

Hrefna telur ekki að búið sé að hafna hjónabandinu á Íslandi.
Fréttablaðið/Ernir

Hægt að kynna fólki muninn betur

Spurð hvar eða hve­nær hægt væri að kynna fólki þessi réttindi segir Hrefna að það megi ekki vera of snemma á lífs­leiðinni því fólk þurfi að geta sett sig í þessi spor. Ein leiðin sem hafi verið nefnd er að veita upp­lýsingar þegar fólk skráir sig í sam­búð.
Önnur leið er að fara með fólki í gegnum þetta þegar par í sam­búð kaupir eign eða tekur lán saman.

Hrefna undir­strikar að það sé fullt til­efni til að skoða lögin og megin­reglurnar sem miðað er við. Þó svo að það yrði komist að sömu niður­stöðu um að miða við sömu megin­reglur þá myndi samt skoðunin sjálf vekja at­hygli og um­ræðu.

Hún telur mikil­vægt að skoða þetta allt í heild. Hvað er sam­búð og hvaða á­hrif á sam­búð að hafa, meðan hún varir, við sam­búðar­slit og við and­lát sam­búðar­maka. Það geti verið flókið því sumir eigi börn og aðrir ekki, sumir séu í skráðri sam­búð og aðrir ekki og sumir hafi verið í sam­búð í ára­tugi en aðrir í ein­hverja mánuði.

„Svo þurfum við að spyrja okkur hvort við viljum hafa sömu reglur um sam­búð og hjú­skap eða hvort við viljum hafa ein­hverja milli­leið,“ segir Hrefna.

Hún segir að þetta hafi verið skoðað betur á hinum Norður­löndunum. Þar hafi verið meiri um­ræða og gerðar breytingar sem hægt væri skoða.

Ber á­byrgð á ó­fáum hjóna­böndum

Hrefna telur að á Ís­landi sé ekki búið að hafna hjóna­bandinu.

„Það er ekki búið að hafna hjóna­bandinu. Í fyrsta lagi er sam­búð hugsuð sem að­dragandi og sem til­raun. Meiri­hluti, ef ekki bara allir sem byrja í sam­búð, hugsa það ekki sem hjóna­band og vilja ekki að það sé jafn skuld­bindandi. Þeir hugsa það sem að­draganda og þá er engin and­staða við að ganga síðar í hjóna­band. Að mínu mati eru fáir sem eru hug­mynda­fræði­lega á móti því. Það sem getur gerst er að þetta gleymist í dagsins önn. Fólk ýtir þessu á undan sér. Ef þú nýtir til dæmis ekki tæki­færið árið sem þið bæði áttuð stór­af­mæli, árið sem barn fæðist eða þið fluttuð í nýtt hús­næði þá ein­hvern veginn líða árin og erfitt að finna rétta tímann,“ segir Hrefna.

Hún segir gaman að segja frá því að þegar hún hefur komið í við­töl og fjallað um málið í kúrsum sem hún kennir þá hafi fólk tekið það til sín per­sónu­lega og gengið alla leið.

„Ég held að ég beri á­byrgð á ó­fáum hjóna­böndum,“ segir Hrefna og hlær. Hún í­trekar þó að hún sé ekkert sér­stak­lega að mæla með hjóna­bandi um­fram sam­búð. Fyrst og fremst vilji hún opna augu fólks fyrir mis­munandi réttar­á­hrifum og hvetja fólk til að taka upp­lýsta á­kvörðun sem hentar hverju sinni.

„Í dag er til dæmis svo mikið af fólki í sam­böndum númer tvö eða þrjú, í sam­settum fjöl­skyldum. Hjóna­bandið er mjög skuld­bindandi og það er ekkert sjálf­gefið að þegar þú ert í sam­bandi númer tvö eða þrjú að þú kærir þig um þessar skyldur og réttindi sem fylgja því. Við megum ekki loka augunum fyrir því hvernig fjöl­skyldu­form og að­stæður fólks eru orðnar miklu fjöl­breyttari en þegar við settum erfða­lögin upp­haf­lega árið 1962,“ segir Hrefna.

„Réttar­staða sam­búðar­fólks er ekki ein­falt mál. Þetta er mjög per­sónu­leg og til­finninga­leg staða og það getur orðið alveg hræði­lega sárt þegar ó­væntir at­burðir gerast og réttar­á­hrif koma fólki í opna sköldu,“ segir Hrefna að lokum.

Ó­sann­girnin í þessum mála­flokki getur verið alls staðar

Vil­hjálmur Þ. Á. Vil­hjálms­son hæsta­réttar­lög­maður hefur unnið að mörgum erfða­málum og segir þau alls ekki ein­föld eða eitt gilda um þau öll. Hann segir lögin þó skýr fyrir lög­fræðinga en svo fari það eftir því hver eigi aðild að málinu hvernig málin fari. Hann segir málin sem koma upp á þessu sviði geta verið flókin, oft og tíðum dramatísk og oft sé ein­hver ó­sann­girni.

Vilhjálmur segir málin sem komi upp á þessu sviði geti verið flókin, oft og tíðum dramatísk og það er oft ein­hver ó­sann­girni.
Fréttablaðið/Stefán

Vil­hjálmur Þ. Á. Vil­hjálms­son hæsta­réttar­lög­maður hjá Lög­fræði­stofu Reykja­víkur er, meðal annars, sér­hæfður í erfða­málum og segir mál Heiðu Bjargar alls ekkert eins­dæmi.

„Lögin eru skýr fyrir lög­fræðinga en það er aldrei hægt að búa til lög sem eru það skýr að allir geti lesið þau. Þannig mættu þau vera skýrari, já ef­laust, en ef það er eitt­hvað sem fólk stendur frammi fyrir þá þarf það hvort eð er alltaf að heyra í lög­fræðingi,“ segir Vil­hjálmur.

Hann bendir á að erfða­réttur sé sam­spil mis­munandi laga og þar séu erfða­lögin að­eins einn þáttur. Aðrir þættir eru hjú­skapar­réttur, eignar­réttur, samninga- og kröfu­réttur og al­þjóð­legur einka­mála­réttur svo nokkuð sé til tekið, að ó­gleymdum auð­vitað skatta­rétti.
Hann segir málin sem komi upp á þessu sviði geti verið flókin, oft og tíðum dramatísk og það er oft ein­hver ó­sann­girni. Hins vegar fer ó­sann­girnin eftir sjónar­hóli hvers og eins og þá fer það mikið eftir þeim ein­stak­lingum sem um ræðir hvernig málum lyktir. Lög geta aldrei komið í veg fyrir vafa­sama hátt­semi en þeim er ætlað að geta leið­rétt slíka hátt­semi. Því hefur stundum verið fleygt að maður þekki ekki fólk al­menni­lega fyrr en maður skipti með þeim dánar­búi.

„Ó­sann­girnin í þessum mála­flokki getur verið alls staðar. Það fer eftir fólkinu sem um ræðir í hverju máli hvar ó­sann­girnin liggur. Oft er það þannig að fólk er að gifta sig oftar en einu sinni og eigi börn með fleiri en einum ein­stak­lingi og það er þá sem flækjurnar myndast. Lögin eru sett fyrir þann tíma. Þegar þau eru sett þá var fólk saman, sama hvað. Það var varla í boði, sam­fé­lags­lega, að skilja,“ segir Vil­hjálmur.

Það er mikill munur á því að vera í hjú­skap eða sam­búð. Það er eigin­lega rosa­lega mikill munur og stundum þegar maður er að tala við fólk þá er ráð­gjöfin bara að það þurfi að gifta sig

Börnin kalli á brúð­kaup

Vil­hjálmur segir að fólk átti sig á nauð­syn þess að gifta sig þegar það eignast börn þar sem börnin eru lög­erfingjar en ekki sam­búðar­aðilar. Ef sam­búðar­maki fellur frá þá erfir barnið fjár­munina og fær þá til ráð­stöfunar við 18 ára aldur. Það eru fáir sem mæla með því að 18 ára ein­staklingar fái of mikla fjár­muni á við­kvæmum tíma ævi sinnar. Þá er ekki hægt að sitja í ó­skiptu búi nema við­komandi hafi verið í hjú­skap. Þess vegna er ráð­gjöfin stundum sú að fólk þurfi ein­fald­lega að gifta sig.

„Það er mikill munur á því að vera í hjú­skap eða sam­búð. Það er eigin­lega rosa­lega mikill munur og stundum þegar maður er að tala við fólk þá er ráð­gjöfin bara að það þurfi að gifta sig,“ segir Vil­hjálmur og bætir við: „Þá er spurningin af hverju lög­gjafinn er að „þvinga“ mann til að giftast.“

Hann segir að gifting, hvort sem hún er kirkju­leg eða borgara­leg, sé í raun ekkert annað en samningur sem, meðal annars, felur einnig í sér erfða­rétt. Hann segir að það megi auð­vitað velta því fyrir sér hvort að erfða­réttur eigi að skapast við aðrar að­stæður, svo sem í sam­búð. Það þyrfti þá að á­kveða eitt­hvað til­tekið við­mið í þeim efnum og slíkt þyrfti á­vallt að fela í sér ein­hverja skráningu enda ó­mögu­legt að miða við annað. Slíkt þyrfti einnig að skoða í sam­hengi við hjú­skapar­réttinn.

„Það er stærri á­kvörðun að gifta sig heldur en byrja sam­búð og aðilar hafa eins og staðan er í dag þann val­kostinn að vera í sam­búð án þess að erfða­réttur stofnist til sam­búðar­makans. Ef það ætti að endur­skoða eða ein­falda erfða­rétt milli sam­búðar­aðila þá þyrfti að gera það að vel at­huguðu máli,“ segir Vil­hjálmur og bætir við:

„Staðan er í það minnsta skýr eins og sakir standa. Það er ekki erfða­réttur í sam­búð. Þeir sem vilja að makinn sinn erfi sig geta annað hvort gift sig eða nýtt sér sinn 1/3 sem frjálsan bréf­arf,“ segir hann.

Sann­gjarnara að dóm­stóll á­kveði

Hann bendir á að ef að sam­búðar­maki fellur frá þá þarf þó fyrst að skipta fé­lags­búi sam­búðar­aðilanna áður en kemur að arf­ráð­stöfun. Við þær að­stæður hafa skapast á­kveðnar dóm­venjur um hvernig skiptingunni skuli háttað, sem unnt er að nota sem leiðar­ljós við skiptingu. Ef aðilar geta ekki komist að sam­komu­lagi er unnt að fá af­stöðu dómara, þar sem metnir eru ýmsir þættir. Svo sem hvað hver kom með inn í sam­búðina, lengd sam­búðar­tíma, tekjur og greiðslur á sam­búðar­tíma og hvort að sam­búðar­aðilum hafi hlotnast börn á sam­búðar­tímanum og stöðu aðila við sam­búðar­lok.

„Það er þá kannski enginn sem getur skorið úr um hvað sé sann­gjarnt nema dóm­stólar. Því má alveg segja að það sé sann­gjarnara að dóm­stóll á­kveði það með öll gögnin fyrir framan sig heldur en að það sé á­kveðin regla. Því það er oftast þannig að á­kveðnar reglur leiða til ó­sann­girni í svona málum,“ segir Vil­hjálmur.

Spurður hvort hann telji að það þurfi að kynna þetta betur segir hann að það sé ef­laust þörf á því. Oftast byrji fólk þó ekki að huga að þessum málum fyrr en um og eftir fimm­tugt. Það sé æski­legt að huga sem fyrst að erfða­málum. Þetta séu oftast ekki flókin skref ef þau eru gerð í tæka tíð.

Eftir and­lát ein­stak­lings kunna oft að vera mis­munandi sjónar­mið uppi um hvað það var sem hinn látni raun­veru­lega vildi og út frá því getur skapast ýmis konar á­greiningur. Það eru minnstar líkur á á­greiningi milli erfingja ef arflátar gera hreint fyrir sínum dyrum og lýsa því hvað það sé sem þeir vilja, svo að aðrir þurfi ekki að geta í eyðurnar.

Hann segir að af eldri kyn­slóðinni séu margir með þetta á hreinu og hafi gert erfða­skrár og fleira, og það jafn­vel oftar en einu sinni. Þá hafi einnig margir á­kveðið til­tekinn lög­mann sem þau treysta til að sjá um skipti á búi sínu, eftir at­vikum með til­teknum óskum eða fyrir­mælum.

„Það er í það minnsta okkar reynsla að skýr skila­boð til erfingja, hvort sem það er með erfða­skrá eða öðrum hætti eru lang lík­legust til að skapa sátt,“ segir Vil­hjálmur