Donald Trump, fyrrum for­seti Banda­ríkjanna, sagðist „mjög, mjög, mjög lík­lega“ ætla að bjóða sig fram aftur til for­seta Banda­ríkjanna, en næstu for­seta­kosningar fara fram árið 2024.

Á fjölda­fundi í Iowa í Banda­ríkjunum í gær sleppti Trump þessum orðum, en þetta var fyrsti fjölda­fundur hans af fjórum á fimm dögum. Hann heldur fjölda­fundina til stuðnings fram­bjóð­enda Repúblikana­flokksins í þing­kosningunum sem eru í næstu viku.

Trump hélt á­fram að leggja á­herslu á að for­seta­kosningunum árið 2020, þar sem hann tapaði fyrir Joe Biden, nú­verandi for­seta Banda­ríkjanna, hefði verið stolið af honum.

„Ég bauð mig fram tvisvar sinnum. Ég vann tvisvar sinnum, og mér gekk miklu betur í seinna skiptið en það fyrra. Ég fékk milljónum fleiri til að kjósa árið 2020 en höfðu gert árið 2016,“ sagði Trump í gær.

Trump sagðist hafa fengið fleiri at­kvæði en nokkur sitjandi for­seti í sögu Banda­ríkjanna, sem er rétt. Trump fékk 72 milljón at­kvæða og er það met fyrir sitjandi for­seta. Joe Biden fékk þó 81 milljón at­kvæða í sömu kosningum, eða níu milljónum fleiri at­kvæða.

„Nú þarf að gera landið okkar far­sælt, öruggt og glæsi­legt. Ég mun mjög, mjög, mjög lík­lega gera það aftur,“ sagði hann og ýjaði að því að til­kynningu væri að vænta „mjög fljót­lega.“

Biden ekkert gefið upp

Biden hefur ekkert gefið út hvort hann hyggist bjóða sig fram aftur. Heimildir BBC herma að hann hafi fundað með ráð­gjöfum sínum í Cali­fornia þar sem þeir vega og meta mögu­legt fram­boð.

Í októ­ber sagði Biden á fundi í Texas að hann „þyrfti lík­legast“ að bjóða sig fram. Í Penn­syl­vaníu í septem­ber sagðist hann „gæta þurft“ að bjóða sig fram aftur.

Mögu­leg mót­fram­boð gegn Trump í for­kosningunum Repúblikana­flokksins hafa verið rædd. Þá hefur nafni Mike Pence, fyrrum vara­for­seta Trump, og ríkis­stjóra Flórída, Ron DeSantis.