„Ef ég get með minni baráttu orðið síðasta konan sem var rekin vegna samtryggingar og karlrembu óhæfra karlstjórnenda þá tek ég þann titil stolt og berst áfram undir þeim merkjum.“

Þetta segir Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem rekin var í síðustu viku frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hafa kvartað undan kynferðislegri áreitni. 

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, var rekinn úr starfi eftir að Einar Bárðarson greindi frá málinu opinberlega á Facebook en Einar er eiginmaður Áslaugar. Hún sakar forstjórann Bjarna Bjarnason um hræsni fyrir að koma fram sem talsmaður #metoo og í jafnréttismálum, jafnvel á erlendum vettvangi, en segir að hann virðist ekki skilja grunnstefið og kjarnann í boðskapnum.

Fékk óumbeðna launahækkun í vor

Áslaug rekur í færslunni tíma sinn hjá ON og færir rök fyrir því að hún hafi staðið sig vel í starfi. Hún hafi verið valin úr hópi 150 umsækjenda fyrir þremur árum og síðast fengið óumbeðna hækkun launa í maí. Ekkert sem tengist vinnunni hafi gefið tilefni til að láta hana fara.

Sjá einnig: Rekinn með skömm en fær laun í sex mánuði

„Atburðir síðustu viku og uppsögnin á mánudagsmorgni kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég hef tvívegis beðið um skýringar á uppsögninni en ekki fengið og ég veit með vissu að forstjóri OR gat ekki útskýrt brottvísunina fyrir stjórn OR á stjórnarfundinum á föstudag.“

Hún segir að Bjarni Már hafi verið ráðinn fyrir um tveimur árum. Eftir sex mánuði undir hans stjórn hafi hún fundið sig knúna til að ræða við starfsmannastjóra um framkomu hans við sig, undirmenn þeirra, aðra millistjórnendur og kvenkyns viðskiptavini. „Þessi samtöl áttu sér stað bæði óformlega og á fundum sem ég bað sérstaklega um til að kvarta yfir framkomu sem engan veginn hæfir stjórnanda sama af hvaða kyni viðkomandi er.“

Hún segist ekki geta annað en að tengja þessi samtöl og tilkynningar  uppsögnina.

Yfirlýsingar standist enga skoðun

Áslaug segir að eftir að þau Einar hafi skrifað bréf til forstjóra OR og starfsmannastjóra á þriðjudag hafi forstjóri OR boðað þau á fund hjá lögfræðingi félagsins. 

„Á fundinum sagði starfsmannastjórinn að hún hefði tekið öll samtölin okkar „alla leið“ eins og hún orðaði það. Þetta er gríðarlega mikilvæg staðfesting sem sýnir að yfirlýsingar forstjóra OR standast enga skoðun þegar hann heldur því fram að hann hafi ekkert vitað um framkomu framkvæmdastjórans og að honum hefði verið „illa brugðið“ við bréfið frá mér. Þá sögðust þau bæði hafa vitað af þessum „galla“ framkvæmdastjórans eins og þau kölluðu það, en ráðið hann engu að síður og með fyrirvara um að hann inni í þessum „göllum“ og héldu því fram að þau hefðu veitt honum „aðstoð” til að vinna með þetta „vandamál“.

Hún segir að allt þetta undirstriki að forstjóri OR hafi vitað allt sem máli skipti um háttsemi framkvæmdastjórans.

„Samt fer hann fram í fjölmiðlum og segir ranglega málið tengjast einum tölvupósti. Það er fráleit staðhæfing, enda ætti maður sem verður uppvís af því að senda einn óviðeigandi tölvupóst sannarlega skilið annað ferli en þann tafarlausa brottrekstur sem stjórn ON ákvað. Því ætti fremur að fylgja leiðbeinandi samtal og í framhaldi væri unnið með honum að því að bæta framkomu hans. Árangurinn myndi svo skýra framtíð hans hjá ON. Um það var ekki að ræða í þessu máli og hörð viðbrögð stjórnar eru því til vitnis. Sama hvernig á það er litið þá stendur ekki steinn yfir steini í því hvernig málinu og forsögu þess hefur verið stillt upp í fjölmiðlum af hálfu forstjóra OR.“

Fráleitt að málið tengist einum pósti

Áslaug segir fullyrðingar forstjórans um að kvartanirnar hafi snúið að einum tölvupósti fráleitar. „Í fjölda tilfella í yfir 18 mánuði gerði ég athugasemdir við framgöngu þessa stjórnanda við mannauðstjóra OR. Þetta átti við framkomu hans opinberlega og á fundum með viðskiptavinum og á einkafundum kallaði hann samstarfskonur mínar innan og utan ON nöfnum sem enginn á að nota. Hann sakaði undirmann minn um að vera ekki nógu graða og skipulagða þegar hann reyndi opinberlega og í votta viðurvist að „lækna“ hana af því meini að vera einhleypa. Þá sakaði hann mig fyrir framan starfsmannastjórann á einum fundinum um það að hafa blikkað mig upp í launum í viðræðum við fyrri framkvæmdastjóra. Ergo: ég væri ekki launanna minna virði eða hreinlega að ég væri vændiskona. Svona mætti halda endalaust áfram.“