Brynjar Níelson segir að hann muni ekki upplýsa um það sem rætt var á fundi hans með embættismönnum Namibíu þrátt fyrir að dómsmálaráðuneytið hafi staðfest að ekki hafi verið um einkaerindi að ræða.

Aðspurður um svar dómsmálaráðherra staðfestir Brynjar að um opinbert erindi hafi verið að ræða. „Þetta var fundur. Þetta var fundur með embættismönnum Namibíu“ sagði Brynjar en hann fundaði með Net­umbo Nandi-Ndaitwah, að­stoðar­for­sætis­ráð­herra Namibíu, Mörthu Imalwa ríkis­sak­sóknara og Ernu Van der Merwe, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóra namibísku spillingar­nefndarinnar.

Muntu gefa út upplýsingar um það sem rætt var á fundinum ?

„Nei, aldrei. Enda tel ég mér það ekki heimilt einu sinni,“ sagði Brynjar, en auk Brynjars hafi tveir skrif­stofu­stjórar og einn stað­gengill skrif­stofu­stjóra sótt fundinn, þær Ragna Bjarna­dóttir, Bryn­dís Helga­dóttir og Hin­rika Sandra Ingi­mundar­dóttir,

Aðspurður um það hvort ekki gildi upplýsingalög um þau málefni sem rædd eru á opinberum fundum dómsmálaráðuneytisins segir Brynjar þau lög ekki gilda um fundi á milli þjóða.

„Nei, upplýsingalögin taka það sérstaklega fram að þetta á ekki við um fundi þar sem rætt er um erindi á milli landa. Ég man nú samt ekki hvernig þetta er orðið,“ segir Brynjar og bætir við „Ég er ekki að fara að upplýsa um þetta, en ekki það að ég vilji það ekki. Ég myndi gjarnan vilja fá að gera það,“ sagði hann.