Glæran frá Verzlunarskóla Íslands sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi í færslu á Facebook-síðu sinni í gær er ekki hluti af formlegu kennsluefni heldur hluti af glærupakka sem kennari skólans notaðist við í stjórnmálafræðikennslu að sögn Guðrúnar Ingu Sívertsen, skólastjóra skólans. Hún hefur sett sig í samband við Sigmund Davíð vegna málsins.

Sigmundur Davíð gagnrýndi í gær kennara í Verzlunarskóla Íslands fyrir að setja mynd af honum ásamt Adolfi Hilter og Benító Mússólíni á glæru í kennsluefni sínu sem bar yfirskriftina: „Nokkrir merkir þjóðernissinnar.“

Sigmundur Davíð tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi en hann telur margt athugavert við glæruna. Hvorki Hitler né Mússólíni geti talist „merkir“ einstaklingar. „Ég veit ekki hvort óþverrabragð kennarans við Verzlunarskólann stafar eingöngu að löngun til að afvegaleiða nemendur pólitískt eða hvort hann var sjálfur afvegaleiddur á yngri árum og veit bara ekki betur,“ sagði Sigmundur Davíð jafnframt í færslu sinni.

Guðrún Inga segir málið hafa verið rætt og að umrædd mynd af glærunni sé gömul. „Glæran var notuð í stjórnmálafræðitíma á síðasta skólaári eða árið þar á undan. Glæran var notuð í kennslustund þar sem verið var að ræða strauma og stefnur í stjórnmálafræði og vissa anga þjóðernisstefnu í sögulegu samhengi.“

Aðspurð segist Guðrún Inga skilja að Sigmundi Davíð hafi brugðið vegna glærunnar. „Hún er ein og sér sláandi og klaufaleg. Ég hefði kosið að heyra frá honum þegar hann fékk þetta skjáskot sent til sín,“ segir Guðrún Inga og heldur áfram: „Ég er þó algjörlega ósammála því sem hann setur fram að hér í skólanum fari fram pólitískur áróður og innræting.“

Líkt og fyrr segir er glæran gömul að sögn Guðrúnar Ingu og segir hún glærur að jafnaði uppfærðar á milli skólaára „og hefur þessi umrædda glæra ekki verið notuð á þessu skólaári að ég best veit.“