Dómsmálaráðherra segir að það verði brugðist við erfiðri stöðu innan fangelsanna með auknu fjármagni, bæði til lengri og til skamms tíma. Greint var frá því í vikunni að aldrei hafi jafn margir verið í gæsluvarðhaldi. Mikið álag á fangelsunum og erfitt að tryggja öryggi fanga og fangavarða.

„Við erum með minnisblað sem fer til fjármálaráðuneytis á næstu dögum og svo til fjárlaganefndar þar sem við förum fram á viðbótarfjármagn. Við þurfum að bregðast við til lengri og skemmri tíma,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um stöðuna innan fangelsismála.

Hann segir að nú sé í framkvæmdaferli breytingar á Litla-Hrauni auk þess sem það er heimild í fjárlögum til að selja Sogn.

„Það væri þá til að geta byggt upp annað úrræði annars staðar,“ segir Jón.

Fordæmalaus fjöldi í gæsluvarðhaldi

Hvað varðar vandann sem uppi er núna segir hann að það gefi augaleið að það verði að bregðast við með aukafjármagni.

„Álagið er auðvitað mjög mikið,“ segir Jón og að það megi rekja til þess að lögreglu- og tollayfirvöld á Suðurnesjum hafi verið að ná góðum árangri við að koma í veg fyrir innflutning.

„Þetta eykur álag á fangelsin. Það er fordæmalaus fjöldi í gæsluvarðhaldi og við þurfum að bregðast við þessu og erum að gera ráðstafanir til að geta gert það.“

Spurður hvenær nákvæmlega Fangelsismálayfirvöld geti gert ráð fyrir slíkum auka ráðstöfunum segir Jón að það megi gera ráð fyrir því á næstunni.

„Við munum vera í samtali við þau um það,“ segir Jón og að meðal langtímalausna séu umbætur á Litla-Hrauni sem séu í umsagnarferli og svo til skamms tíma væru lausnirnar að auka við mannafla og styrkja þannig stöðuna innan fangelsanna.

„Við erum í þeirri stöðu að rekstrarkostnaður hefur farið mikið upp og það er ekki einu sinni ekki hægt að fullnýta rými því það er of lítið fjármagn og við því erum við að bregðast.“