Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hefur sett sér mark­mið um að veita 70 prósentum full­orðinna Banda­ríkja­manna að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni fyrir þjóð­há­tíðar­daginn 4. júlí. Ein stærsta hindrunin í vegi Bidens er nú að sann­færa þá sem efast um gagn­semi bólu­efna og neita að fá sprautu. Frétta­stofa AP greinir frá.

Eftir­spurn eftir bólu­efni hefur dvínað til muna um gjör­völl Banda­ríkin og sum fylki nýta ekki nema um helming af út­hlutuðum bólu­efna­kvóta sínum. Á þriðju­dag hvatti Biden fylki til þess að bjóða upp á bólu­setningu fyrir alla sem vilja með því mark­miði að auð­velda fólki að nálgast bólu­efni.

Mark­mið ríkis­stjórnar Bidens hefur nú færst frá því að ná hjarðó­næmi yfir í það að bólu­setja sem flesta á sem skemmstum tíma. Þar að auki ætlar ríkis­stjórn hans nú í fyrsta sinn að leggja á­herslu á að færa bólu­efna­skammta frá fylkjum þar sem eftir­spurnin eftir bólu­efni er lítil, yfir til fylkja þar sem eftir­spurnin er mikil.

„Þú verður að fá bólu­setningu. Jafn­vel þó svo að líkurnar á að þú veikist séu litlar, af hverju að taka sénsinn? Það gæti bjargað lífi þínu eða lífi ein­hvers sem þú elskar,“ sagði Biden í ræðu sem hann hélt í Hvíta húsinu í gær.

105 milljón Banda­ríkja­menn full­bólu­settir

Nú þegar hafa rúm 56 prósent Banda­ríkja­manna fengið að minnsta kosti fyrsta skammt af CO­VID-19 bólu­efni og nærri því 105 milljón manns eru full­bólu­settir. Banda­ríkja­menn bólu­setja nú sem stendur um 965.000 manns á dag með fyrsta skammti sem er helmingi minna heldur en fyrir þremur vikum en nánast tvö­falt hraðar en þarf til að ná mark­miði Bidens.

„Ég væri til í að ná því upp í 100 prósent en ég held að það sé raun­hæfur mögu­leiki á að við náum því mark­miði á milli dagsins í dag og 4. júlí,“ segir Biden.

Hann sagði að ríkis­stjórnin myndi ein­blína á þrjá sam­fé­lags­hópa til að reyna að auka hraða bólu­setninga. Full­orðna sem þarf að sann­færa til að gangast undir bólu­setningu, þá sem eru í erfiðri fé­lags­legri stöðu eða hafa tafist að gangast undir bólu­setningu, og að lokum ung­menni á aldrinum 12-15 ára eftir að al­ríkis­yfir­völd sam­þykkja bólu­setningu fyrir þann aldurs­hóp.

Biden viður­kennir að það sé að hægjast á bólu­setningum og for­setinn býst við því að þær muni ganga erfiðar fyrir sig þegar kemur að því að sann­færa efa­semda­menn um nauð­syn þess að fá sprautu. Hann segir veiga­mestu rökin vera þau að fólk eigi að vernda ást­vini sína.

„Þetta er þitt val: líf eða dauði,“ segir Biden.