Sæborg Ninja Guðmundsdóttir hyggst leggja fram kæru vegna framkomu dyravarðar á Hverfisbarnum í sinn garð. Hún segir að henni hafi verið vísað út af skemmtistaðnum vegna þess að hún er trans kona.

Fréttablaðið sagði frá því í dag að trans konu hefði verið vísað á dyr í gærkvöldi, með vísan í reglur skemmtistaðarins um klæðaburð. Sæborgu er í engum vafa um að henni hafi verið vísað frá vegna kynvitundar sinnar. „Ég og systir mín erum þarna þegar staðurinn er tómur, upp úr klukkan níu um kvöldið. Klukkan svona tíu fer dyravörðurinn að setja út á klæðaburðinn okkar, en segir að við megum vera áfram til miðnættis. Svo klukkan svona ellefu segir hann að við þurfum bara að fara,“ segir Sæborg í samtali við Fréttablaðið. 

Siðferðisleg skylda að kæra

Samkvæmt almenn hegningarlögum varðar það refsingu að neita manni um þjónustu á grundvelli m.a. kynvitundar. Sæborg segir það siðferðislega skyldu sína að leggja fram kæru. „Við spurðum hann hvað það væri við klæðnaðinn minn sem væri ábótavant, og fyrst gaf hann fátt um svör. Síðan sagði hann að ég mætti ekki vera í leggings, sem ég var samt ekki í, en aðrar konur á staðnum voru samt í leggings,“ segir hún. „Síðan benti hann á einhvern mann og sagði að ég ætti að vera klædd eins og hann. Klæðaburðurinn okkar var ekki ólíkur annarra kvenna sem voru þarna.“

Hún segir að dyravörðurinn hafi verið mjög æstur, og þegar að hann var spurður út í það hvort hann væri fordómafullur í garð transfólks hafi hann orðið enn reiðari. „Okkur var sagt að við mættum vera þarna þangað til við kláruðum drykkina okkar, en stuttu seinna tók hann drykk af einni konunni sem var með okkur þarna og hellti niður á götuna, því þá værum við búin með drykkina okkar,“ segir Sæborg. „Það var þarna par á fertugsaldri sem blöskraði svo mikið að þau fóru með viðskipti sín annað.“

Gerir mismununina áþreifanlega

Sæborg var að halda upp á afmæli systur sinnar, sem hafði fyrr um daginn fengið tilboð frá Hverfisbarnum á bjór gegn því að koma með afmælisföruneyti sitt á staðnum. Aðspurð segir Sæborg að þetta hafi drepið niður stemninguna hjá hópnum. „Þegar þarna var komið langaði okkur bara ekkert að vera þarna lengur, þetta var mjög sorglegt,“ segir hún. „Þetta skemmdi að miklu leyti stemninguna í þessu afmæli, þangað til við fórum annað. Þar setti enginn dyravörður út á hvernig ég var til fara,“ bætir hún við.

Sæborg segist ekki hafa orðið fyrir svona aðkasti áður, en að hún sækir vanalega ekki skemmtistaði af ótta við fordóma. „Ég fer samt sjálf mjög lítið niður í miðbæ því ég vil ekki lenda í þessu. Ef ég hef farið hef ég farið þar sem annað transfólk er. Þetta atvik sló þennan kvíða við áreitni alveg inn,“ segir hún. „Þetta gerir mismununina svo áþreifanlega.“