Karl Ágúst Úlfs­son er í ítar­legu við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins að til­efni þess að hann ætlar sér að kveðja leik­sviðið eftir rúm­lega fjöru­tíu ára feril með sýningunni Fíflið. Hann ætlar að snúa sér að skriftum af fullum þunga og kveðst eiga margar skúffur fullar af hand­ritum.

Karl Ágúst út­skrifaðist úr Leik­listar­skóla Ís­lands árið 1981 og varð fljót­lega fastur gestur á fjölum ís­lenskra at­vinnu­leik­húsa. Hann segir það hafa verið stór­feng­legt tæki­færi að fá sem ungur maður að kynnast mörgum af þeim leikurum sem hann hafði litið upp til frá unga aldri.

„Þegar ég var búinn að starfa í fá­ein ár í ís­lensku at­vinnu­leik­húsi þá fór ég reyndar að furða mig á því hvað margt af þessu fólki var biturt og ó­sátt við ferilinn sinn og reitt innan í sér þótt það brosti mikið út á við. Jafn­vel leikarar sem höfðu átt glæsi­legt ævi­starf sem ég hefði ekki haldið að væri nokkur á­stæða önnur til en að vera stoltur af. Þá fór ég mjög fljót­lega að hugsa: „Ég ætla ekki að lenda þarna.“ Núna í Co­vid-far­aldrinum þegar ég fór að setjast niður og fara yfir það sem ég hef gert þá var ég um leið mjög þakk­látur fyrir að vera ekki kominn á þennan stað.“

Tók sjálfan sig mjög al­var­lega

Þótt Karl Ágúst sé þekktastur sem gaman­leikari þver­tekur hann fyrir að það hafi verið með­vituð á­kvörðun að fara út í grínið.

„Ég tók sjálfan mig ofsa­lega al­var­lega sem lista­mann þegar ég var ný­út­skrifaður. Ég skil það ekki alveg þegar ég hugsa til þess í dag hvað ég hafði ó­bilandi sjálfs­traust og fannst ég geta allt, sem ég auð­vitað gat ekki. Kannski hefði ég varla gert helminginn af því sem ég hef gert ef ég hefði ekki haft þessa trú,“ segir hann.

Fyrsta vís­bendingin að því sem verða skyldi kom árið 1982 þegar Karl lék í upp­færslu Al­þýðu­leik­hússins á verki Guð­mundar Steins­sonar Þjóð­há­tíð. Þá komst gagn­rýnandi Morgun­blaðsins svo að orði: „Karl Ágúst sýnir það hér að í honum býr kómíker.“

„Þetta var það fyrsta sem ég hafði heyrt eða séð um það að ég væri gaman­leikari í ein­hverri merkingu. En svo gerist þetta náttúr­lega mjög fljót­lega,“ segir Karl Ágúst.

Ég tók sjálfan mig ofsa­lega al­var­lega sem lista­mann þegar ég var ný­út­skrifaður. Ég skil það ekki alveg þegar ég hugsa til þess í dag hvað ég hafði ó­bilandi sjálfs­traust.