Lögreglustjórinn í Brooklyn Center í Minneapolis, Tim Gannon, hefur nú gefið það út að lögreglumaðurinn sem skaut tvítugan svartan karlmann til bana í gær hafi ætlað að nota Taser-byssu en óvart tekið upp skammbyssu. Hann segir að því hafi verið um slys að ræða.

Hinn 20 ára Daunte Wright hafði verið stöðvaður fyrir umferðarlagabrot í úthverfum Minneapolis í gær og kom síðar í ljós að handtökuskipun gegn honum hafi verið gefið út. Hann hafði stigið aftur inn í bílinn sinn þegar hann var skotinn og keyrði í kjölfarið stuttan spöl áður en hann klessti á annan bíl og var úrskurðaður látinn á staðnum.

Að sögn Gannon kallaði lögreglumaðurinn „Taser“ áður en skotinu var hleypt af og var það staðfest í búkmyndavélum en upptökur úr þeim voru birtar í dag. Á upptökunni má heyra lögreglumanninn öskra að hann hafi skotið Wright.

„Það er ekkert sem ég get sagt til að draga úr sársaukanum sem fjölskylda Wright og vinir hans upplifa nú eflaust,“ sagði Gannon á blaðamannafundi um málið í dag. „Samfélagið og allir aðrir sem koma að málinu deila sársaukanum,“ sagði Gannon enn fremur.

Fjölmargir hafa þó gagnrýnt ummæli lögreglustjórans og vísað til þess að það sjáist greinilega í upptökunum að lögreglumaðurinn hafði nokkrar sekúndur til að átta sig á að hann héldi á byssu.

Réttað yfir Chauvin í næsta nágreni

Miklar óeirðir brutust út í Minneapolis í kjölfarið og kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda. Lögregla skaut meðal annars gúmmíkúlum í átt að mótmælendum sem höfðu kastað steinum, ruslapokum og vatnsflöskum í lögreglu. Borgarstjóri Minneapolis hefur sett á útgöngubann vegna málsins.

Mótmælin í gær og í dag eru aðeins nokkra kílómetra frá dómstólnum þar sem réttarhöldin yfir Derek Chauvin, lögreglumanni sem varð George Floyd að bana í fyrra, fara nú fram en Chauvin er ákærður fyrir morð og manndráp með því að þrengja að öndunarvegi Floyd í margar mínútur með þeim afleiðingum að hann lést.

Mál Floyd varð til þess að fjölmargir fóru að óska eftir að tekið yrði á kerfislægu misrétti lögreglu í garð svartra. Málflutningur í máli Chauvin lýkur í dag og munu kviðdómarar í kjölfarið ákveða hvort hann verði sakfelldur.