Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir erlendum manni sem er grunaður um að hafa flutt inn hátt í fjórtán þúsund töflur af ólöglegum fíkniefnum til Íslands. Hann mun sæta farbanni til 5 ágúst.

Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli í apríl á þessu ári. Við gegnumlýsingu á tösku hans mátti sjá að í henni væru pakkningar sem skoða þyrfti betur. Hann framvísaði vegabréfi og sagðist vera kominn hingað til lands til að skoða norðurljósin.

Þá sagðist hann ætla að hitta félaga sinn sem hefði græjað fyrir hann hótel í miðbænum. Þegar hann var spurður um nafn vinarins, gat hann ekki svarað því til að byrja með, en gaf síðan upp „líklegt“ nafn hans.

Maðurinn var síðan spurður hvort eitthvað væri í töskunni hans, en hann sagðist ekki hafa pakkað í hana sjálfur.

Efnin fundust á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Fréttablaðið/ERNIR

18,6 milljón króna söluverðmæti

Í töskunni fundust margar töflur, sem voru merktar sem diazepam, en það er lyf sem stundum er kallað dísur. Töflurnar voru 13.986 talsins. Samkvæmt úrskurðinum er um að ræða blár töflur merktar C/DC, sem er ekki merking á löglega framleiddu diazepam.

„Þessar eru þekktar fyrir að vera framleiddar ólöglega erlendis og getur innihaldið verið mjög breytilegt og stórhættulegt.“ segir í úrskurðinum, en fram kemur að söluverðmæti þeirra sé 18,6 milljónir króna.

Þá segir að samkvæmt bráðabirgðamatsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands virðast töflurnar innihalda efnið flúbrómazólam, sem er skylt lyfinu benzódíazepín. En það telst til ávana- og fíkniefna sem óheimilt er að hafa á íslensku forráðasvæði.

Maðurinn hefur játað að hann hafa komið hingað til lands í þeim tilgangi að smygla efnunum til landsins. Hann átti að fá greitt fyrir það, en vill ekki svara því hver hafi beðið hann um það og sagðist ekki vita hvern hann ætti að hitta hér á landi.