„Við munum ekki gefa neitt eftir þegar kemur að því að rafbílavæða flotann og losa þannig bílaflotann við jarðefnaeldsneyti. Það er mjög mikilvægt að það gangi hratt og örugglega fyrir sig,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, en eftir að hann kom inn í ráðuneytið setti hann af stað vinnu um hvers konar ívilnun rafbílaeigendur muni fá.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að rafbílakvótinn, sem telur 15 þúsund bíla, væri að klárast og segir Guðlaugur að stjórnvöld séu með skýr markmið þegar kemur að loftslagsmálum og það verði ekkert hvikað frá þeim. Eigendur rafbíla og tengiltvinnbíla hafa fengið skattaívilnanir og metur fjármála- og efnahagsráðuneytið að kostnaðurinn við þær sé um 20 milljarðar króna.

Gengið vonum framar

Áratugur er síðan þetta var sett á laggirnar en Guðlaugur segir að það hafi gengið vonum framar og virkað vel sem verði til þess að fólk haldi áfram að fjárfesta í rafbílum. „Til að þetta virki þurfa innviðir að vera í lagi. Tengiltvinnbílarnir var millileikur því innviðirnir voru ekki komnir. Í fullkomnum heimi værum við með þannig innviði að það væri ekkert mál að vera á rafbíl hvar sem er á landinu og ferðast hvert sem er.

En okkur liggur á. Það eru stórar áskoranir í orkumálunum og þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna hratt.“

Hann bendir á að með þessu kerfi sé verið að taka af fjárveitingu sem rennur til Vegagerðarinnar til að viðhalda vegum á landinu í góðu ásigkomulagi. „Það er líka verkefni að hafa þetta jafnvægi. Að hvetja til að kaupa rafbíla en sömuleiðis þurfum við að fjármagna vegakerfið til lengri og skemmri tíma.“

Hann segir að það verði að vera þannig að allir geti tileinkað sér umhverfisvænan lífsstíl. „Orkuskiptin þurfa að vera hagkvæm fyrir alla og við verðum að vera með augun á því að allir geti, alveg sama hvar í tekjustiganum þeir eru, valið umhverfisvænan lífsstíl.“

Myndi breyta innanlandsflugi gríðarlega

Skömmu fyrir áramót kom fyrsta rafmagnsflugvélin til landsins en þróunin er hröð í flugsamgöngum líka og segir Guðlaugur að innanlandsflug gæti tekið stakkaskiptum eftir aðeins örfá ár en sænskur framleiðandi, Heart Aerospace, hefur þróað 19 sæta rafmagnsflugvél sem gæti umbylt innanlandssamgöngum. Jafnvel hleypt lífi í gamla en góða flugvelli sem séu lítið notaðir. „Það myndi breyta innanlandsflugi gríðarlega og í því felast mikil tækifæri fyrir landsmenn alla. Opna nýja vídd í umhverfisvænum samgöngum á Íslandi,“ segir Guðlaugur Þór.