Aðgerðir til þess að stemma stigu við ágengni máva í Sjálandshverfi eru nú í undirbúningi í Garðabæ. Sílamávurinn hefur verið til ama undanfarin ár og íbúar leitað til bæjarins til að gera eitthvað í málinu.

„Íbúar kvarta mikið undan þessu,“ segir Guðbjörg Brá Gísladóttir, deildarstjóri umhverfis og framkvæmda hjá Garðabæ. Hún segir þetta þó ekki vera einsdæmi í Sjálandshverfi, heldur geta verið þar sem byggt er nærri varplandi. En í Gálgahrauni, sunnan við Sjálandshverfi, er stórt varpland máva.

Vandamálið er ekki nýtt af nálinni en illa hefur gengið að fást við mávinn. Garðabær hefur verið bæði rætt við meindýraeyði og fuglafræðinga um þennan vanda. Fuglafræðingar telja fjölda máva ekki óeðlilega mikinn en stofninn sveiflast með fjölda síla í sjónum. Þegar þau minnka sækir mávurinn meira upp á land í leit að æti.

„Þeir segja þetta fullkomlega eðlilegt. Það er búið að byggja á landsvæði mávanna,“ segir Guðbjörg. Bænum hefur þegar borist erindi í vetur út af mávum en Guðbjörg segir versta tímann ekki hafinn. „Þetta byrjar í sumar þegar ungarnir koma. Mávurinn er ekki að trufla neinn núna,“ segir hún. Býst bærinn því við erindum frá íbúum í allt sumar.

Meðal þeirra sem fundið hafa fyrir ágangi sílamávsins eru íbúar hjúkrunarheimilisins Ísafoldar. Þá hafa mávarnir verpt á þökum húsa. Margir eigendur veigra sér við því að hringja í meindýraeyði til þess að láta farga ungunum og hafa frekar samband við bæinn til að spyrjast fyrir.

Hægt er að setja upp fælur á þök, eins konar veifur, en Guðbjörg segir vafasamt að það sé í verkahring sveitarfélagsins að sjá um uppsetningu á þeim. Garðabær sé nú að undirbúa upplýsingagjöf til bæjarbúa um hvernig þeir geti snúið sér í þessum málum.

Þá er einnig verið að undirbúa aðgerðir til að minnka fjöldann, eða það er að segja fjölgun mávanna. Það er að gata eggin svo þau fúlni að innan og ungarnir drepist fyrir klak. Garðabær hefur ekki gripið til þess í mörg ár að skjóta mávinn. Það sem flækir málið enn frekar er að í Gálgahrauni er friðland fugla. Hefur Garðabær því þurft að fá undanþágu hjá umhverfisráðuneytinu fyrir öllum aðgerðum.