Aðstandendur þeirra sem starfa í Fjöliðjunni á Akranesi lýsa yfir miklum áhyggjum af því að byggja eigi upp fyrrum húsnæði Fjölmiðjunnar í bænum sem í er mygla og brann að hluta í hitteðfyrra.

Rétt fyrir brunann vorið 2019 fannst mygla eftir að Mannvit verkfræðistofa gerði úttekt á húsinu. Ekkert varð úr úrbótum þar sem skömmu síðar kviknaði í húsinu sem stendur við Dalbraut í bænum. Fjöliðjan er verndaður vinnu-og endurhæfingarstaður fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Verkís verkfræðistofa skilaði nýlega skýrslu um ástand húsarústanna og kom í ljós að mygla er enn í þeim.

Aðstandandi fatlaðs einstaklings sem vinnur í Fjöliðjunni segir málið liggja þung á fólki. „Það hefur alvarlegar áhyggjur af því að byggja eigi á brunarústunum og þegar maður sér hve erfiðlega gengur á vinna á myglu í öðrum byggingum, til dæmis í Reykjavík, þá spyr maður hvort það sé áhættunar virði að byggja þetta upp. Þurfum við að taka þessa áhættu hér á Akranesi?“ spyr hann. Fjöliðjan hefur leigt bráðabirgðahúsnæði við Smiðjuvelli á Akranesi sem hefur hentað starfseminni eftir atvikum vel undanfarin tvö ár.

Miklar skemmdir urðu innanhúss.
Mynd/Skessuhorn/MM

Málið ekki tekið alvarlega

„Við höfum miklar áhyggjur af því að þarna sé verið að leggja í ferðalag sem bara muni ekki ganga upp, við höfum enga tryggingu fyrir því að þetta verði í lagi og reyndar benda allar fréttir af baráttu við myglu í húsum í hina áttina,” segir hann og spyr hvers vegna slík áhætta sé tekin “Af hverju að taka sénsinn á þessu með heilsu fólks og sérstaklega með okkar viðkvæmustu hópa sem sumt er fjölfatlað fólk? Okkur finnst stjórnendur bæjarfélagsins ekki nálgast málið af nægilegri nærgætni og alvöru.”

Aðstandendur standa utan við

Starfshópur sem kannaði fýsileika á endurbyggingu skilaði af sér tillögum í fyrrahaust og einn kostanna var að endurbyggja núverandi hús og byggja við það og að það yrði gert sem fyrst. Í hópnum sátu fulltrúar frá Umhverfis-og skipulagssviði bæjarins og starfsmenn Fjöliðjunnar. Aðstandendur áttu engan fulltrúa í þeim starfshópi.

Notendaráð fær ekki hljómgrunn

Notendaráð um málefni fatlaðs fólks vildi kanna málið betur m.a. að skoða betur þann kost að rífa rústir núverandi húss og byggja nýtt frá grunni. Þar horfði fólk m.a. til myglunnar sem upp hafði komið en það hefur ekki fengið hljómgrunn hjá meirihluta bæjarstjórnar. Í ráðið er skipað samkvæmt lögum kjörnum fulltrúum og fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðra.

Fjöliðjan á Akranesi er verndaður vinnu-og hæfingarstaður fyrir fólk með skerta starfsgetu.
Mynd/Akraneskaupstaður

Ekki eining um málið

Óeining er í bæjarstjórn Akraness um hvort byggja eigi á rústum hússins við Dalbraut og hafa fulltrúar minnihlutans í Sjálfstæðisflokki lýst miklum efasaemdum um málið og vildu láta rífa húsið. Meirihlutinn vill hins vegar byggja húsið upp og einnig viðbyggingu sem teikningar voru fyrir 14 árum.

Munum fara rétt að

Ragnar B. Sæmundsson, formaður skipulags-og umhverfisráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins segir að verkefninu verði fylgt vel eftir og gerðar verði mælingar á meðan á niðurrifi stendur. „Sagan hefur sýnt okkur að „vissa“ er eitthvað sem við ekki höfum í þessum málum. Við fengum hins vegar til verksins að því við teljum færustu aðila landsins og munum vinna áfram með þeim í gegnum ferlið. Þegar kemur að myglu er mjög skiljanlegt að fólk hafi áhyggjur,“ segir Ragnar sem situr í meirihluta Framsóknarflokks og Samfylkingar í bænum. Hann segir að verkefninu verði fylgt vel eftir og farið verði að ráðum í einu og öllu sem fagmenn munu leggja til í þessum ferli og húsið verði „skrælt að innan“. „Ef við förum rétt að verður þetta ekki vandamál,“ segir hann.