Þingflokkur Pírata hefur undirbúið aðra tillögu að vantraustsályktun á dómsmálaráðherra ef hún víkur ekki úr embætti. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV en Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra stóð af sér slíka tillögu fyrir tæpu ári. Þá voru það einnig Píratar, auk þingflokki Samfylkingarinnar sem lögðu fram vantrauststillögu á hendur Sigríðar. 

Í kvöldfréttum RÚV sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, það óumflýjanlegt að slík tillaga verði lögð fram gagnvart ráðherranum ef ríkisstjórnin leysti ekki þá stöðu sem komin er upp sjálf.  

Sjá einnig: Segir dóminn engu breyta um pólitíska stöðu sína

„Dómurinn er alvarlegur áfellisdómur yfir stöðu réttarríkisins á Íslandi í dag,“ sagði Þórhildur Sunna. Þá sagði hún þingflokk Pírata nú þegar hafa undirbúið tillögu að vantraustsályktun á Sigríði og sent hana til meðflutnings. „Hins vegar er að sjálfsögðu  tímaspursmál hvort og þá hvenær hún verður lögð fram. Að sjálfsögðu þurfum við líka að gefa ráðherra rými til að hugsa sinn gang og sömuleiðis ríkisstjórninni hvort þeim þyki stætt að verja þennan ráðherra mikið lengur.“

Greint var frá því í morgun að Mannréttindardómstóll Evrópu(MDE) hefði dæmt skipun dómara í Landsrétt ólöglega. Sigríður Á. Andersen telur að staða sín sé óbreytt þrátt fyrir niðurstöðu MDE. Dómsmálaráðherra sagði fyrr í dag að verið sé að skoða „vand­lega og al­var­lega“ að skjóta niður­stöðunni til yfir­dóms MDE.

Ríkið hafi þrjá mánuði til að taka á­kvörðun um það. Sig­ríður sagði að af­staða ís­lenskra dóm­stóla lægi „skýr fyrir“ og vísaði þar til þess að Lands­réttur og Hæsti­réttur hafi hafnað kröfunni um van­hæfi Arn­fríðar Einars­dóttur sem Sig­ríður skipaði sem dómara þvert á mat hæfnis­nefndar.