Hópur mótmælenda ætlar að gista á Austurvelli í nótt. Með því vonast hann eftir áheyrn stjórnvalda, hvað varðar málefni flóttafólks hér á landi. Mótmælendur eru með teppi, svefnpoka og ýmislegt sér til dægrarstyttingar með í för en hiti er við frostmark á höfuðborgarsvæðinu. 

Um er að ræða fimmtu mótmælin á skömmum tíma þar sem hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningsmönnum þeirra, krefjast þess að fá að ræða við stjórnvöld um stöðu flóttafólks hér á landi. Kröfur þeirra eru í fimm liðum og snúa meðal annars að því að fá að vinna, að fá jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu á við aðra landsmenn og að Ásbrú verði lokað. 

Dansa sér til hita

Elínborg Harpa Önundardóttir, hjá hópnum No Borders Iceland, segir stemninguna vera góða á Austurvelli. Tónlist hefur verið spiluð og hópurinn dansar sér til hita. Hún segir þó standa til að slökkva á tónlistinni klukkan ellefu. 

„Það er bara brjáuð stemning. Fólk er að dansa og spila og svo er einhver búinn að sækja fótbolta og allir í mjög góðu stuði. Við búumst við því að hætta tónlistinni klukkan ellefu og þá reynum við að hafa ofan af fyrir okkur,“ segir Elínborg í samtali við Fréttablaðið. 

„Við þiggjum það ef að fólk vill koma með eitthvað að drekka eða teppi, en við reynum að dansa okkur til hita. Það verður örugglega erfiðara þegar að tónlistin fer.“ Elínborg segir stemninguna vera öðruvísi en í gær þegar að tveir mótmælendur voru handteknir og lögregla beitti piparúða gegn mótmælendum. Segir hún hópinn hafa verið látin afskiptalausan í dag, en lögreglan sé enn með viðveru við Austurvöll. 

Hópurinn ætlar sér að sofa undir berum himni, en sofið verði þar í vöktum svo fólk geti yljað sér í kuldanum. „Það á enginn að fá lungnabólgu.“  

Hvað varðar framhaldið segir Elínborg það verða að koma í ljós. Líklega verði mótmælt eitthvað áfram, eða þar til stjórnvöld taka við sér. Markmiðið sé að opna á samtal við stjórnvöld.