„Við létum sanda þarna um daginn og það kostaði það mikið að við sáum að við getum ekki gert þetta án þess að rukka,“ segir Marta Sonja Gísladóttir, bóndi á bænum Heiði í Biskupstungum. Hún á landið þar sem fossinn Faxi fellur. Á dögunum lét hún loka fyrir aðgengi að bílastæði við fossinn, vegna hálku.

Marta opnaði á nýjan leik þegar hlánaði en segir í samtali við Fréttablaðið að hún sjái fram á að loka á nýjan leik, nú þegar kólni aftur. Hún segir að þau hjónin sjái sér ekki annað fært en að stýra aðgengi með þessum hætti þar sem þau gætu verið ábyrg ef einhver slasar sig á jörðinni.

Sjá einnig: Lokaði vinsælum ferðamannastað með heyrúllum

Í sumar gerir Marta ráð fyrir að þau muni byggja upp þjónustu á svæðinu í sumar og byrja að rukka inn á það. Þjónustan verður þá í formi moksturs og söndunar eftir atvikum, auk þess sem þau munu reisa þjónustuhús með salernum. „Svo yrði að vera þarna manneskja,“ segir hún. Marta á von á því að þetta verði sett upp í sumar og framvegis muni fólk borga fyrir aðgang að fossinum.

„Það er bara tvennt í boði,“ segir Marta um stöðuna: „Það er að loka alveg eða þjónusta þetta.“ Hún segir að þeir sem hún hafi hitt á svæðinu hafi verið jákvæðir fyrir þessum áformum. „En tíminn verður að leiða í ljós hvort þetta mun borga sig.“