Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar, segir hljómsveitina miður sín yfir ásökunum um meint skattalagabrot. Útlit sé fyrir að endurskoðandi hljómsveitarinnar hafi ekki staðið sína plikt og heitir því að greiða sína skuld til baka að fullu. 

„Við vorum með endurskoðanda hjá PWC. Hann hætti þar og stofnaði eigið fyrirtæki og við ákváðum að fylgja honum, enda var hann með öll okkar mál og þekkti þau vel. Við erum hvorki lögfræðingar né endurskoðendur og töldum okkur trú um að öll okkar mál væru í lagi,“ segir Georg í samtali við Fréttablaðið.

Líkt og greint var frá í dag sæta allir þrír meðlimir Sigur Rósar rannsókn vegna gruns um mörg hundruð milljóna skattalagabrot, og hafa eignir þeirra fyrir samtals 800 milljónir króna verið kyrrsettar. 

„Þetta er alveg ferlegt og það var alveg ferlegt að komast að þessu. En um leið og við komumst að þessu þá var farið í að vinna úr þessu. Við erum að vinna í því að laga þetta,“ útskýrir Georg, og bætir við að þeir séu þegar byrjaðir að endurgreiða skuld sína. Hann sagðist hins vegar ekki hafa upplýsingar um fjárhæð skuldarinnar, né fjárhæð meintra skattaundanskota. 

„Við munum greiða þetta til baka og finna út hvað það var sem fór úrskeiðis. Við treystum þarna endurskoðanda okkar og töldum að allt væri í góðu, þegar það reyndist svo þveröfugt. Við viljum hafa allt klárt og uppi á borðum. Þetta eru engin Panama-skjöl eða neitt slíkt .Við borgum okkar skatt eins og aðrir og þetta er allt í farvegi.“