„Við þurftum að byrja á laugardagsmorgun að setja spýtur og spotta fyrir allt þar sem hægt er að keyra inn á völlinn. Fólk var að keyra inn á hann og ekkert að hugsa. Keyrðu yfir grínin, brautir og beint í fjöruna til að skoða hvalinn,“ segir Óskar Marínó Jónsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Sandgerðis.

Óskar, Lárus Óskarsson formaður golfklúbbsins, og aðrir félagar í klúbbnum þurftu að standa í stórræðum um helgina eftir að fréttir bárust um samfélagsmiðla af því að hræ af hnúfubak lægi við sjöundu holu hjá Golfklúbbi Sandgerðis. Helgarrúnturinn lá á völlinn en ekki voru allir að hugsa um golfvöllinn heldur æddu af stað í hugsunarleysi til að þurfa að labba sem minnst. Flestir lögðu hjá Garðskagavita en þurftu þá að ganga töluverðan spotta. Eftir að spurðist út að betra væri að leggja hjá golfvellinum til að spara labbið gerðust hlutirnir hratt.

„Á sunnudag var fullur völlur af golfurum að spila frá 10-16 og þeir sem voru að skoða hvalinn voru bara fyrir.

SAXoPicture-0B2FEBB0-837973439.jpg

Óskar Marinó Jónsson

Löbbuðu fyrir allar brautir og ég veit ekki hvað og hvað. Það komu um tvö þúsund manns hérna á laugardeginum og hátt í þrjú þúsund á sunnudeginum. Það var einhver fjöldi sem kom hingað á föstudaginn líka en þá vorum við ekki að telja,“ segir Óskar.

Þeir fengu svo bæjaryfirvöld og björgunarsveitina með sér í lið í gær og drógu hnúfubakinn, sem var 16 metra langur og þriggja metra hár, út á sjó þar sem honum var sökkt.

„Við fengum björgunarsveitina og bæinn til að hjálpa okkur. Þetta truflaði allt okkar starf þannig að við losuðum okkur við hann. Hann var allur uppblásinn og virtist hreinlega vera að springa. Það hefði verið helvíti glatað. Vera með úldinn völl í allt sumar. Það hefði ekkert verið sérstakt,“ segir Óskar, hress með að vera laus við hvalinn og tillitslausa gesti.