Kristinn Haukur Guðnason
Laugardagur 30. maí 2020
00.04 GMT

Valgerður er Hafnfirðingur í húð og hár, fædd á Sólvangi árið 1964, elst fjögurra systkina. Faðir hennar Rúnar starfaði sem rafvirki og móðir hennar Sif sem sjúkraliði. Valgerður segir heimilislífið hafa verið yndislegt, en á þessum árum hafi fólk verið að byggja húsin sín sjálft og ekki miklir peningar til.

„Ég var mjög prúð sem krakki og ég held að enginn hafi kvartað yfir mér,“ segir Valgerður aðspurð um barnæskuna. Hún gekk í Öldutúnsskóla, Víðistaðaskóla, Kvennaskólann, sem var þá grunnskóli, og Menntaskólann í Reykjavík. Á lokaárinu í MR ákvað hún að taka stefnuna á læknisnámið, en önnur fög, svo sem íslenska og jarðfræði, toguðu einnig.

Þegar Valgerður var á sextánda ári fór hún í sumarleyfisferð til Júgóslavíu með vinkonum sínum og gistu þær í bæ við Adríahafið. Þar kynntist hún pilti frá suðurhluta Sviss sem var í helgarferð, Flavio Paltenghi að nafni, og hófst samband þeirra á milli.

Valgerður jánkar því að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn en hún átti þó ekki endilega von á því að neitt yrði úr sambandinu. Þegar hún sneri heim úr ferðalaginu biðu hennar nokkur sendibréf frá Flavio og skömmu síðar kom hann til Íslands í heimsókn. „Mamma og pabbi tóku honum mjög vel og við ferðuðumst með hann um allt landið,“ segir hún.

Hún viðurkennir þó að fjarbúðarsamband hafi verið erfitt á þessum tíma, bréf lengi að berast og símtöl milli landa dýr. Valgerður lærði hins vegar ítölsku, móðurmál Flavios, í flýti og þau létu sambandið ganga upp, milli Hafnarfjarðar og Lugano.

Óvæntur tölvupóstur

Valgerður og Flavio héldu sambandinu til tvítugs en þá flosnaði upp úr því. „Ég ætlaði alltaf að fara út til hans en síðan skorti mig hugrekkið til að fylgja því eftir. Ég var svolítið hrædd um að ég myndi ekki vilja koma aftur til baka.“

Lífið stoppaði hins vegar ekki. Við tók háskólanám í læknisfræði, sérnám í Bandaríkjunum, tvö hjónabönd og þrjú börn. Tuttugu ár liðu án þess að hún heyrði frá Flavio í Sviss. En einn daginn fékk hún tölvupóst.

„Hann hafði fengið þá hugdettu að leita að mér og fann netfangið mitt á einhverri netsíðu. Í póstinum spurði hann hvort þetta væri virkilega ég,“ segir Valgerður og brosir. „Við byrjuðum að spjalla og komumst fljótlega að því að við vorum bæði á tímamótum í lífinu. Um ári síðar vorum við komin í þetta samband sem við erum í núna, og verðum vonandi alltaf.“

Valgerður258.jpg

Valgerður kynntist Flavio á unglingsárunum en þau misstu niður sambandið í 20 ár.

Valgerður segir að það samband sem myndaðist á unglingsárunum hafi lagt grunninn að því seinna, ekki aðeins að þau hafi kynnst þá. „Maður er að mótast mikið á unglingsárunum og það gerist eitthvað sérstakt. Þegar við loksins hittumst aftur eftir öll þessi ár fannst okkur þetta vera svo rétt, öruggt og afslappað. Ég átti ekki von á því að hitta Flavio nokkurn tímann framar. En ég átti enn þá fullan kassa af sendibréfum frá honum.“

Hið seinna samband Valgerðar og Flavios hefur nú varað í um fimmtán ár. Þau búa enn þá í fjarbúð en Valgerður segir aðstæðurnar til þess séu langtum betri en á níunda áratugnum. Þau fljúga reglulega á milli og heyrast margsinnis á dag í gegnum netið. COVID-19 faraldurinn hefur þó gert það að verkum að þau hafa ekki getað hist í langan tíma. „Hann átti tvær ferðir pantaðar á þessum tíma en sú næsta er skipulögð 17. júní og vonandi kemst hann þá.“

Baráttan við áfengið

Í sumar eru 20 ár síðan Valgerður hóf störf hjá SÁÁ. Hún lauk læknanámi á Íslandi 1992 og lærði fíknlækningar í Rhode Island í Bandaríkjunum eftir að hafa klárað lyflækningar þar ytra einnig. Ýmsar aðrar undirsérgreinar komu til greina, svo sem nýrnalækningar eða smitsjúkdómalækningar. En fíknlækningar urðu ofan á, meðal annars vegna hennar eigin baráttu við áfengi. Árið 1989, þegar hún var í Háskóla Íslands, sótti hún sér meðferð á Vogi.

„Ég spjaraði mig ágætlega í skólanum en eins og hjá mörgum alkóhólistum komu vandamálin fyrst og fremst fram í fjölskyldulífinu. Það sem gekk á hjá mér var alveg meira en nóg,“ segir hún. „Ég var búin að reyna sjálf að hætta að drekka en þurfti að fá aðstoð.“

Meðferðin hafði mótandi áhrif á Valgerði og hún hefur alfarið haldið sig frá drykkju, ef frá er skilið nokkurra vikna bakslag þegar hún var í náminu vestra, átta eða níu árum síðar. Hún segir langan aðdraganda hafa verið að því. „Ég var ekki að sinna verkefninu. Var flutt til útlanda, frá stuðningsnetinu og farin að hugsa um aðra hluti. Ég vanmat þennan sjúkdóm sem er mjög skæður. Það er erfitt að skilja af hverju fólk byrjar að gera eitthvað sem skemmir fyrir þeim á öllum sviðum í lífinu. En það eru skýringar á þessu, bæði líffræðilegar og félagslegar,“ segir hún. „Það var ekkert gæfulegt við þennan neyslutíma en hann var stuttur sem betur fer, og ekkert alvarlegt kom fyrir.“

Ólíkt hérna heima var enginn meðferðarspítali eins og Vogur til að leita til. Þegar Valgerður ákvað að hætta aftur leitaði hún því í sjálfshjálp og til annarra sem voru í sömu stöðu.

Ekki bara sorg og sút

Eftir námið lá beinast við að hún hæfi störf hjá SÁÁ og það varð raunin strax eftir útskrift árið 2000. Valgerður segir margt hafa breyst á þessum tíma og vímuefnin verið einsleitari áður fyrr. Stóraukið framboð, sérstaklega á örvandi efnum, hafi átt sér stað á þessum tíma og mest undanfarin fjögur eða fimm ár. Í dag er um helmingur þeirra sem koma inn á Vog háðir örvandi vímuefnum, eins og amfetamíni, kókaíni og MDMA. Þá hafa sterk verkjalyf eða ópíóíðar einnig aukist og kannabis fylgt með.

„Hópurinn sem er í neyslu hefur ekki endilega stækkað en hann er að nota fleiri efni og vandinn því fjölþættari og hefur aðrar afleiðingar en að nota aðeins eitt vímuefni,“ segir Valgerður. Óvirknin sé einn stærsti þátturinn.

Alls hafa um 26 þúsund einstaklingar innritast í meðferð á Vogi hjá SÁÁ á 42 árum og Valgerður hefur starfað þar helming þess tíma. Heildarinnritanir eru milli 80 og 90 þúsund. Hún segir fólk hafa mjög mismunandi væntingar til meðferðarinnar og batinn komi fram á ýmsan hátt. Sumir séu að berjast fyrir því að halda því sem það á, svo sem hjónabandi, fjölskyldu og starfi. Aðrir séu að berjast til að halda lífinu.

„Þetta er ákaflega gefandi starf og það er hægt að gera svo mikið fyrir fólk. Mestu verðlaunin eru að sjá fólk taka verkefnið alvarlega og öðlast trú á sjálfu sér, framtíðinni og lífinu. Þetta er ekki bara sorg og sút,“ segir Valgerður. Þegar endurkomuhlutfall er skoðað eru aðeins innan við fimm prósent sem hafa lagst inn á Vog tíu sinnum eða oftar. Hún ítrekar þó að vandinn sé langvinnur, og ekki hægt að laga hann með einfaldri aðgerð.

„Allir geta komist í bata. Fólk getur líka komist í bata að hluta til, til dæmis með því að breyta neyslunni. Að hætta að sprauta í æð er risaskref og eykur lífslíkurnar gríðarlega mikið,“ segir hún. „Margt af því sem við gerum inni á Vogi er að huga að þessari skaðaminnkun, því tíminn er þess virði. Þegar fólk er komið á ákveðinn stað er hægt að vinna í frekari bata.“

Skylda að sinna kallinu

Valgerður tók við stöðu forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga árið 2017 af Þórarni Tyrfingssyni. Sem stjórnanda finnst henni erfitt að sjá hversu margir þurfa að bíða meðferðar og að þessi stóri hópur sem á við fíknivanda að stríða sé ekki settur í forgang. Meira en helmingur af þeim sem innritast á Vog eiga börn undir lögaldri og því heilu fjölskyldurnar í húfi.

„Þegar fólk er að biðja um hjálparhönd er það á tímamótum í lífi sínu og okkur ber skylda til þess að sinna því kalli,“ segir hún. Við getum ekki vitað hvernig staðan verður hjá því eftir hálft ár. Vitaskuld séu sorgarsögur á bak við hverja innritun og Valgerður segist finna sérstaklega til með aðstandendum þeirra sem eru mjög langt leiddir.

„Ég er viss um að ég hef náð að brynja mig töluvert á öllum þessum árum. Ég sé hlutina kannski líka með öðrum augum en sá sem sér þá í fyrsta skipti. Þetta er samt alltaf átakanlegt.“

Valgerður er þakklát fyrir það kerfi sem búið er að byggja upp og þau úrræði sem eru til staðar fyrir fólk í fíknivanda.Ekki sé þó hægt að taka fram fyrir hendur fólks. „Margir sinna þessum vanda í heilbrigðis- og félagskerfinu, og hlutur SÁÁ er gríðarmikilvægur hlekkur með úrræði sem eru nauðsynlegur hluti af heilbrigðisþjónustunni. Góð þverfagleg samvinna og samtal milli kerfa er nauðsynlegt til að sinna fólki með fíknsjúkdóm sem best á öllum stigum í okkar velferðarkerfi; heilsugæslu, sjúkrahúsum, félagsþjónustu, sérfræðistofum, og svo framvegis. Þessa samvinnu vil ég sjá dafna enn frekar.“

Uppsagnirnar átylla

Um 70–80 prósent af starfsemi SÁÁ er fjármögnuð með samningum við ríkið en samtökin standa straum af afganginum. Vegna COVID-19 var fyrirséð að 120 milljóna tekjufall yrði á sjálfsaflafé samtakanna, sem þýðir samdráttur á starfseminni og hægt að taka við 15 prósent færri einstaklingum það sem eftir lifir árs en í vanalegu árferði.

„Það er afleitt að þurfa að draga úr þjónustu, en nauðsynlegt þar sem samtökin þurftu að draga úr meðgjöf með sjúkrarekstrinum úr 250 milljónum í 125 milljónir króna árið 2020 vegna COVID-19 áhrifanna,“ segir Valgerður og heldur áfram: „Best færi á því að yfirvöld greiddu að fullu fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem SÁÁ veitir, svo hún sé ekki háð sjálfsaflafé og aflögu félagasamtakanna. Brýn þörf fyrir þjónustu hefur leitt til þess að SÁÁ hefur bætt á sig verkefnum í gegnum árin sem ríkið greiðir ekki fyrir.“

Í mars síðastliðnum ákvað framkvæmdastjórn félagasamtakanna SÁÁ að segja upp nærri öllum sálfræðingum spítalans og elstu starfsmönnum. Í kjölfarið sagði Valgerður upp og einnig þrír úr framkvæmdastjórninni. Tæpum mánuði síðar dró hún uppsögnina til baka og skömmu síðar voru uppsagnir starfsfólksins dregnar til baka. Mikið var fjallað um ágreininginn milli stjórnarinnar og meðferðarsviðsins í fjölmiðlum.

Valgerður254.jpg

Valgerður segist hafa skynjað undirtón gegn starfseminni sem hún og hennar fólk hafa byggt upp

Hjá SÁÁ starfa um 100 manns úr ýmsum heilbrigðisstéttum og á skrifstofu. Valgerður segir þetta mjög góðan og samrýndan hóp fagfólks sem unnið hafi saman að því að þróa meðferðarúrræðin hjá spítalanum, eftirmeðferðarstöð og göngudeildum. Mun minni starfsmannavelta sé nú en áður og þörf sé á að bæta við fagstéttum, svo sem félagsráðgjöfum, og efla samráð og samskipti við aðrar stofnanir.

„Þarna var tekin ákvörðun án samráðs við mig um uppsagnir fólks á meðferðarsviði án þess að athuga hvaða áhrif það hefði á starfsemina. Og það var hrapallega röng ákvörðun,“ segir Valgerður. „Ástæðan sem var gefin var sú að þessar stéttir væru ekki hluti af þjónustusamningunum en þetta var átylla til að taka út sálfræðingana. Sumir voru líka komnir að eftirlaunaaldri og hvort eð er að hætta og því smekklaust að segja þeim upp á þennan hátt. Þetta var alger yfirgangur og gert undir fölsku flaggi. Allir vissu að það þyrfti að spara, en þetta var ekki rétta leiðin fyrir framtíð SÁÁ. Þetta er svo mikilvægt starf.“

Valgerður segist hafa skynjað undirtón gegn þeirri starfsemi sem hún og hennar fólk hafi verið að þróa á undanförnum árum. Frá fólki sem hafði verið lengi við stjórnvölinn, bæði í stjórn og fyrrverandi yfirmenn á meðferðarsviði.

Aðspurð um hvers vegna hún telji þennan mótbyr vera segir hún það mögulega vera ótta við breytingar, sem séu þó ekki byltingarkenndar í þessu tilviki. Áfram sé haldið að byggja ofan á þann grunn sem lagður hafi verið á síðustu 42 árum. „Þetta er einhver valdabarátta og ekki góð staða til að vera inni í. Ég er ekki stríðskona. Nýjum stjórnendum fylgja alltaf breytingar og nýjar áherslur. Sú faglega vinna sem unnin hefur verið af því fólki, sem segja átti upp, er ómetanleg viðbót fyrir starfsemina og starfsmenn, og hefur skilað sér beint í betri þjónustu við okkar skjólstæðinga. Þessi uppbygging þarf að halda áfram.“

Bíður eftir aðalfundi

Þegar uppsagnir starfsmannanna voru kynntar og Valgerður sagði upp fór allt á annan endann. Fjöldi fólks steig fram og lýsti yfir stuðningi við hana og það starf sem hafði verið byggt upp. Starfsfólkinu misbauð og lýsti yfir vantrausti á formanninn og framkvæmdastjórnina. Félög sálfræðinga og geðlækna og fleiri gáfu út yfirlýsingar. Hafði það þó ekki áhrif til breytinga

Reiði starfsfólks jókst eftir starfsmannafund í apríl vegna framkomu fulltrúa framkvæmdastjórnar og Valgerður heyrði að margir væru að gefast upp og ætluðu að hætta. Á þeim tímapunkti ákvað hún að draga uppsögn sína til baka, í von um að ró kæmist á spítalann. Samtalið um hlutverk formanns og framkvæmdastjórnar um fagleg málefni meðferðarsviðs eigi þó enn eftir að eiga sér stað.

Ekki hefur verið ákveðin dagsetning fyrir aðalfund SÁÁ, en hann verður þó haldinn bráðlega. Þar mun verða kosin 1/3 af 48 manna stjórn, sem aftur kýs níu manna framkvæmdastjórn, þar af formann og varaformann. Eins og staðan er í dag er Arnþór Jónsson formaður framkvæmdastjórnar og samtakanna SÁÁ. Valgerður segir að með nýrri stjórn þurfi hlutverk formanns að vera skýrt. „Á fundinum kemur í ljós hvort tekið verði tillit til óánægjunnar með framkvæmdastjórnina. Þetta ástand hefur ekki haft áhrif á þjónustuna við sjúklingana en vitaskuld hefur þetta áhrif á líðan starfsfólksins.“

Maraþon og náttúruvernd

Valgerður hefur lengi stundað útivist og gengið á fjöll. Því var haldið að systkinunum í æsku og í seinni tíð hefur Valgerður bætt langhlaupum við, með hlaupahópi FH. Á síðasta ári hljóp hún maraþon í fyrsta skipti erlendis, hinu þekkta Boston-maraþoni, og einnig 60 kílómetra hlaup á Ítalíu með hópnum.

„Þetta gerir mjög mikið fyrir mig og í hópnum mínum er mjög gott fólk,“ segir Valgerður og brosir. „Ég verð óþreyjufull ef ég kemst ekki út að hlaupa en eftir hlaup er ég endurnærð. Þetta dreifir huganum og losar um streitu.“

Þegar hún hóf að hlaupa fyrir alvöru, fyrir um átta árum síðan, segist hún hafa verið full gráðug. Þetta hafi valdið bæði brotum og brjósklosi en undanfarin þrjú ár hafi blessunarlega verið meiðslalaus. Hún er þakklát fyrir hvert ár í viðbót sem hún getur hlaupið með hópnum sínum.

Valgerður255.jpg

Stefnan er sett á 100 kílómetra hlaup við Mont Blanc í Ölpunum

Nú er stefnan sett á 100 kílómetra hlaup við Mont Blanc í Ölpunum, með rúmlega 6 þúsund metra hækkun, en það var slegið af í ár vegna COVID-19. COVID-19 hefur einnig haft áhrif á annað áhugamál, kórastarf með Léttsveit Reykjavíkur, en æfingar þar hafa legið niðri.

Náttúran er henni líka hjartfólgin. Valgerður bendir á innrammaða ljósmynd af fjallgönguhópnum sínum, við topp Hrútfjallstinda á Vatnajökli. „Þetta er toppurinn á tilverunni,“ segir hún. „Mér finnst ákaflega mikilvægt að berjast fyrir því að víðátta Íslands fái þá virðingu sem henni ber. Að við skemmum ekki fyrir framtíðinni með því að ganga á landið.“

Valgerður hefur tekið þátt í baráttunni gegn virkjun Hvalár á Ströndum, sem nú hefur stöðvast, að minnsta kosti tímabundið.

„Ég skil að við þurfum að lifa af einhverju, veiða fiskinn í sjónum og virkja, en við verðum að gera það með skynsemi. Skammtímahagsmunir mega ekki valda óafturkræfum skaða á landinu. Ég skil vel að það er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn að taka þessar ákvarðanir. En þeir verða að horfa á stóru myndina, ekki aðeins hagsmunaaðila. Það er svo mikið í húfi.“

Valgerður Rúnarsdóttir verður gestur Bjarkar Eiðsdóttur í þættinum Helgarviðtalið á sjónvarpsstöðinni Hringbraut á sunnudaginn klukkan 21:00.

Athugasemdir