Veðurstofan hefur gefið út veðurviðvaranir fyrir stærstan hluta landsins vegna hríðarveðurs. Taka þær flestar gildi í kvöld og gilda fram á morgun.

Gul viðvörun er vegna höfuðborgarsvæðisins, Suðurlands, Faxaflóa, Breiðafjarðar, Vestfjarða og Norðurlands eystra. Þá er appelsínugul viðvörun vegna miðhálendis auk Stranda og Norðurlands vestra.

Í dag má reikna með norðlægri átt, 3-10 m/s og dálítilli él norðan- og austanlands en annars bjartviðri. Frost 0 til 7 stig.

Vaxandi suðaustanátt í dag og þykknar upp, fyrst um landið vestanvert, 15-23 m/s og slydda eða snjókoma þar undir kvöld, en rigning á láglendi um miðnætti. Dálítil slydda eða rigning SA-lands, en þurrt að kalla NA-til. Rigning um mest allt land í nótt og hiti víða 2 til 8 stig.

Fólk sleppi því að ana út í óvissuna

Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands að í kvöld megi búast við að vindstyrkur verði kominn víða upp undir stormstyrk (20 m/s). Dálítil óvissa sé um hve hratt hlýnar en það hefur mikil áhrif á hvaða úrkomutegund verður á láglendi. Líklegast er að úrkoman byrji sem snjókoma eða slydda en færist síðan yfir í rigningu á láglendi.

Mestu hlýindin verða samt ekki fyrr en eftir miðnætti og fram undir morgun, en þá snýst vindur jafnframt til suðvestanáttar. Hún verður ekki eins hvöss og úrkomumikil eins og veðrið verður í nótt, en um og eftir hádegi á morgun er útlit fyrir að vindur verði víða 15-20 m/s og hvassari í éljum og þá hefur einnig kólnað talsvert frá morgninum.

„Æskilegt er að fólk ani ekki útí óvissuna því útlit er á að élin verði bæði dimm og mjög hvöss,“ segir að lokum í hugleiðingum veðurfræðings.