Mál Reynis Traustasonar gegn Arnþrúði Karlsdóttur og Útvarpi Sögu verður tekið fyrir í dag. Fréttablaðið greindi fyrst frá því, í desember á síðasta ári, að Reynir hygðist leita réttar síns vegna ummæla sem hún lét falla í símatíma á stöðinni.

„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á samviskunni, bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar?“ var meðal þess sem haft var eftir Arnþrúði um Reyni.

Reynir segist krefjast bóta en að þær séu ekki aðalmálið. „Ég geri kröfu um að orðin verði dæmd ómerk,“ segir Reynir og vill hann einnig fá afsökunarbeiðni.

Í aðdraganda málsins segir Reynir að þess hafi verið krafist að hann sjálfur mætti fyrir dóminn og upplýsti hversu oft hann hefði verið kærður fyrir ærumeiðingar.

„Það er búið að stefna mér ellefu sinnum fyrir ærumeiðingar. Tíu sinnum vann ég málin og í ellefta skiptið dæmdi Mannréttindadómstóllinn okkur bætur vegna dóms Hæstaréttar í svokölluðu Sigurplastsmáli,“ segir hann.

Að sögn Reynis hafa engar sáttaumleitanir farið fram. Arnþrúður Karlsdóttir vildi ekki tjá sig um málið.