Sumarið 2005 var Einar Karlsson í sumarfríi ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku þegar hann rak augun í litskrúðuga hoppudýnu sem virtist njóta mikilla vinsælda hjá ungviðinu. Hann gróf upp nafnið á framleiðandanum og hafði samband þegar heim var komið. „Fyrstu viðbrögð framleiðandans voru að hann ætlaði nú ekki að stunda viðskipti við Íslending,“ segir Einar kíminn.

Hann hafi þurft að fylgja málinu talsvert eftir og loks fékk hann senda VHS-spólu með leiðbeiningum og kynningarefni. Fyrr en varði var hann farinn út í helgarferð til þess að læra allt varðandi uppsetningu slíkra leiktækja. Svo hófst markaðsstarfið. „Ég ætlaði fyrst að kalla þetta hoppudýnu. Sem betur fer greip félagi minn Ófeigur Örn Ófeigsson inn í og kom með nafnið ærslabelgur,“ segir Einar.

Ein af vinsælustu bókunum um Einar Áskel eftir Gunillu Bergström heitir „Hvað varð um Einar ærslabelg?“. Því hlýtur að liggja beinast við að Einar beri það viðurnefni. „Nei, þú segir nokkuð. Ég er yfirleitt kallaður Einar belgur,“ segir hann og hlær.

Fyrsti ærslabelgurinn var settur upp í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum 2006 en eftir það seldi Einar 1-2 á ári fram að efnahagshruninu. Þá stoppaði allt. „Framleiðandinn hafði spáð því að þetta myndi taka um átta ár að ná vinsældum. Ég fagnaði í raun bara þegar það kom inn ein pöntun,“ segir Einar. Allt hafi þó farið á flug fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þá hrúguðust inn pantanir. „Ég seldi 26 ærslabelgi það ár og síðan þá hefur salan verið mikil,“ segir Einar sem er að ljúka framkvæmdum við hundraðasta ærslabelginn í Hólmavík þegar tal næst af honum.

Einar segir að vinsældir ærslabelgjanna séu ekki síst vegna þess að það sé hægt að koma þeim hvar sem er fyrir og að raskið sé lítið. „Ég þarf bara smá grasblett og gref örlítið niður. Síðan er loftið tekið úr yfir veturinn og allt í góðu þó að snjói yfir þetta. Efnið í dúknum er það sama og er í Zodiac-slöngubátum þannig að það er sterkt og endingargott,“ segir Einar.

Því miður hefur þó borið á því að belgirnir verði fyrir skemmdarverkum. „Það hefur komið fyrir að þeir séu gataðir og það nýjasta er að keyrt sé yfir þá á vespum og dúkurinn þannig spændur upp.“ Það séu þó undantekningatilfelli og heilt yfir fái belgirnir að vera í friði. Einar hefur haft uppsetningu ærslabelgjanna að aðalstarfi undanfarin sumur. Hann segir að starfið sé afar skemmtilegt enda heimsæki hann bæi um allt land og dvelji þar í nokkra daga við uppsetninguna.

„Ég er yfirleitt tvo, þrjá daga að setja belgina upp á hverjum stað. Ég er búinn að kynnast ótrúlega mörgu fólki í nánast öllum bæjarfélögum landsins. Ég er sérstaklega vinsæll hjá gröfumönnum bæjarfélaganna, þeir eru allir í símaskrá