Magdalena Andersson er nýr leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð. Hún er nýlega tekin við af Stefan Löfven, formanni flokksins og forsætisráðherra Svíþjóðar, sem sagði af sér embætti fyrr á árinu.

Ærið verkefni bíður Andersson, en fylgi Sósíaldemókrataflokksins er í sögulegu lágmarki þrátt fyrir að hann sé stærsti flokkurinn á sænska þinginu. Í sumar var samþykkt vantrauststillaga á ríkisstjórn Löfvens, en þrátt fyrir það hefur ekki verið boðað til nýrra þingkosninga.

Vonir standa til um það meðal flokksmanna að Andersson geti hleypt lífi í hinn rótgróna Sósíaldemókrataflokk og komið honum aftur á fyrri stall. Ríkisstjórnarmyndun hefur gengið brösuglega og stjórnarmyndunarumboðið gengið flokksformanna á milli undanfarna mánuði.

Þingkosningar eru fyrirhugaðar í september á næsta ári.

Andersson sagði í kjölfar umboðs­veitingarinnar að hún væri reiðubúin í verkið og setur velferðarmál í forgang, takist henni að mynda ríkisstjórn.

„Það þarf að efla velferðarkerfi Svíþjóðar og allir ættu að hafa greiðan aðgang að lífeyri og almannatryggingum.“ Þá vill hún að Svíþjóð taki forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Andersson fékk formlegt umboð til ríkisstjórnarmyndunar fyrr í vikunni og stendur frammi fyrir því að geta orðið fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Svíþjóðar, takist henni vel til í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Andersson hefur verið flokksbundinn Sósíaldemókrati frá árinu 1983 þegar hún gekk til liðs við ungliðahreyfingu flokksins. Hún er með meistaragráðu í hagfræði og gekk í Harvard um hríð.

Að loknu námi starfaði hún sem aðstoðarmaður Görans Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Árið 2014 var hún kjörin á þing fyrir Sósíaldemókrataflokkinn og hefur gegnt embætti fjármálaráðherra síðan þá.