Yfir 20 þúsund manns hafa nú sett nafn sitt við undirskriftalista þar sem þess er krafist að Alþingi lögfesti nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðs.

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag og sagði þetta tilefni til að „ærast úr gleði.“

Vilja 25 þúsund undirskriftir

Með áfanganum hefur félagið komist langleiðina að því markmiði sínu að safna 25 þúsund undirskriftum fyrir 20. október næstkomandi en þá eru átta ár eru liðin frá því að kosið var um tillögurnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jafngildir sá fjöldi um tíu prósentum kosningabærra manna á Íslandi en samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs yrði það nógu stór fjöldi til að fá frumvarp lagt fram á Alþingi.

2/3 studdu tillögurnar

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012 samþykktu 67 prósent kjósenda að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Hefur það þó ekki enn orðið að veruleika.

Mikið hefur borið á herferð Stjórnarskrárfélagsins og talsfólks þess að undanförnu og og hefur ungt fólk þar meðal annars verið áberandi.

„Hugsið ykkur TUTTUGU ÞÚSUND hjörtu sem slá í takt og vilja að hlustað sé á almenning í þessu landi þegar það kemur að sjálfum samfélagssáttmálanum,“ sagði Katrín við tilefnið en fjöldi undirskrifta hefur nú skriðið yfir 21 þúsund.

GRJÓTHARÐAR GLEÐIFRÉTTIR!!! AKKÚRAT á þessari mínútu er tilefni til þess að ÆRAST úr gleð því TUTTUGU ÞÚSUND nafna...

Posted by Katrín Oddsdóttir on Monday, September 14, 2020