Samkvæmt norskum fjölmiðlum verður unnið að því í alla nótt að koma skipverjunum 1.400 úr skemmtiferðaskipinu á þurrt land. Skipið varð vélarvana um klukkan tvö í dag. Litlu mátti muna að skipið strandaði en skipsverjum tókst með akkerum að stöðva rekið.

NRK greinir frá því að björgunarstörfin gangi hægt en þó sé búið að koma þremur af vélum skipsins í gang. Aðeins sé búið að flytja um 166 af 1.400 farþegum á land. Við verkið eru notaðar sjö björgunarþyrlur. Tvær þeirra voru í kvöld notaðar til að bjarga áhöfn norska flutningaskipsins Hagland Captain, sem einnig varð vélarvana á svipuðum slóðum í kvöld. Áhafnarmeðlimir þurftu að stökkva í sjóinn áður en þeim var bjargað.

Fram kom fyrr í kvöld að í það minnsta fjórir hefðu verið fluttir á sjúkrahús vegna beinbrota og skurða eftir veltinginn. Þrjú þeirra, allt eldra fólk, munu vera nokkuð mikið slösuð.

Ekki er útilokað að skipinu takist að sigla frá landi í nótt. Hér að neðan má sjá myndband sem tekið var úr þyrlu í dag. Eins og sjá má á því er afar vont veður á svæðinu.