Einar Hansberg hóf síðasta föstudag 500 kílómetra róður í CrossFit Reykjavík til styrktar Kristínu Sif og börnum hennar sem misstu nýverið föður sinn. Um klukkan hálf átta í kvöld, sunnudag, átti Einar aðeins um 25 kílómetra eftir af róðrinum.

„Hann var að byrja að telja frá 25 kílómetrum núna. Honum líður furðulega vel. Hann lítur vel út, er ekki lengi að svara, gerir það skýrt og er ekki lengi að meðtaka það sem fer fram í kringum hann,“ segir Heimir Þór Árnason bróðir Einars í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Spurður hvort nokkuð slíkt hafi verið gert áður segir Heimir að haft hafi verið samband við framleiðendur róðravélanna og þau hafi ekki munað eftir því að nokkur hafi gert þetta áður.

„Svo best sem við vitum hefur þetta aldrei verið gert áður,“ segir Heimir

Fjórir gestir farið 100 kílómetra

Heimir hefur verið Einari til halds og trausts um helgina, líkt og margir aðrir. Hann segir að sem dæmi hafi um klukkan hálf tvö í nótt verið biðröð í vélarnar til að róa með Einari og um klukkan þrjú í dag hafi þau verið búin að skrá allt að 400 manns sem hafi komið á viðburðinn til að róa með honum. 

„Í salnum eru um tuttugu vélar og við erum með gestabók sem fólk skráir sig. Um klukkan þrjú í dag höfðu um 400 skráð sig í gestabókin. Þau hafa farið allt frá þremur kílómetrum upp í 100 kílómetra. Það hafa fjórir farið 100 kílómetra í einu,“ segir Heimir.

Klárar síðustu kílómetrana með Kristínu

Enn er hægt að fara og róa með Einari en Heimir taldi að hann myndi um níuleytið í kvöld hefja róður á síðustu tíu kílómetrunum ásamt Kristínu Sif.

Heimir vissi ekki hvað hafði mikið safnast inn á reikning og sagði að þau væru núna að einbeita sér að því að veita Einari stuðning.

„Stemningin er mjög fín núna og er að magnast. Það fer að styttast í að allt fyllist hérna,“ segir Heimir.

Hægt er að fylgjast með róðrinum í beinni útsendingu á K100 og hægt er að styðja verkefnið með því að leggja inn á reikning:  Bankaupplýsingar: 0326-26-003131 Kennitala: 021283-3399

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér á Facebook.