Í dag lýkur björgunaræfingu norðurslóðaríkjanna, Arctic Guardian. Í æfingunni, sem hófst á mánudag, eru æfð viðbrögðin við því þegar stórt olíuflutningaskip og farþegaskip með 250 farþega rekast saman norðan við Ísland.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir æfinguna hafa gengið sérlega vel. Á annað hundrað þátttakendur frá strandgæslum norðurslóðaríkjanna og samstarfsstofnana hafa tekið þátt í henni.

Upphaflega átti æfingin að fara fram á Norðurlandi en var frestað og hún færð yfir í netheima vegna faraldursins. Mikill undirbúningur hefur staðið yfir í allan vetur og fjarfundirnir orðnir margir.

„Undirbúningur hefur verið umfangsmeiri, tímafrekari og flóknari,“ segir Georg aðspurður um hvernig sé að halda svona æfingu á netinu. „Við höfum lært alveg geysilega mikið af þessu ferli öllu. Nú vitum við að þetta er aðferð sem hægt er að nota án þess að þurfa að fara í dýr og tímafrek ferðalög.

Hann segir að stofnanirnar muni búa að þessari reynslu og halda þróuninni áfram. Verklegar æfingar séu þó enn þá mikilvægar.

Í æfingunni er unnið með þrjár sviðsmyndir sem þarf að samræma, leit, björgun og mengunarvarnir. Hver og ein þjóð miðlar sinni reynslu og tillögu að lausnum, en auk Íslands taka hinar Norðurlandaþjóðirnar, Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Rússar þátt í æfingunni.

„Í fyrsta lagi er lögð áhersla á björgun mannslífa. Þegar því er lokið færist áherslan yfir í björgun umhverfis og að lokum björgun verðmæta,“ segir Georg um forgangsröðunina. „Ef árekstur olíuflutningaskips og farþegaskips yrði hér við land væru skip og loftför Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og einingar á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar auk skipa í grennd við slysstaðinn. Í kjölfarið kæmu tæki og mannafli frá systurstofnunum okkar að utan.“

Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar
Mynd/Árni Sæberg - LHG

Georg segir helstu áskorunina í verkefni sem þessu umfangið. Fjöldi fólks sem þyrfti að bjarga á ýmsum aldri og í ýmsu ástandi yrði gríðarlegur. Önnur áskorunin er hið gríðarlega mikla magn olíu sem fer í sjóinn. Fyrstu íslensku viðbragðsaðilarnir gætu verið komnir á vettvang innan nokkurra klukkustunda en gert er ráð fyrir að það taki allt að sólarhring að koma stærri einingum á staðinn. Að fá erlenda aðstoð getur tekið tvo til fimm sólarhringa.

„Slys sem þetta væri af þeirri stærðargráðu að íslenskt viðbragðskerfi myndi ekki ráða við það og því væri mikilvægt að fá aðstoð að utan,“ segir Georg. „Öll norðurslóðaríkin væru í sömu stöðu og við og yrðu að treysta á utanaðkomandi aðstoð. Af þeim sökum er afar brýnt að standa fyrir æfingu sem þessari svo hægt sé að æfa og samræma viðbrögðin ef stórslys verður hér eða annars staðar.“ Því sé samstarf sem þetta afar þýðingarmikið.

Eftir æfinguna lýkur Landhelgisgæslan formennsku í samtökum strandgæslu á norðurslóðum og Rússar taka við. „Heimsfaraldurinn hefur þvingað okkur til að nýta tæknina og fyrir vikið hefur reynst unnt að eiga tíðari samskipti við systurstofnanir okkar en annars hefði verið,“ segir Georg og að Landhelgisgæslan geti verið stolt af sinni formennskutíð.