„Það fjarar undan góðum grunni þegar áhugi yfirvalda er nánast enginn og mánuð eftir mánuð þarf að fara með hópinn í sund, á skauta eða eitthvað sem kemur frjálsum lítið við,“ segir í bréfi frjálsíþróttadeilda Reykjavíkur til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar þar sem óskað er eftir auknum aðgangi íþróttafólks félaganna að frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
Í bréfinu er bent á að mikið hafi verið um lokanir í höllinni bæði í september og október. Lokanirnar komu sér illa bæði fyrir afreksfólk og barna- og unglingastarf hverfafélagsins Ármanns sem er að reyna að byggja upp frjálsíþróttadeild.
„Á sama tíma og aðgengið er heft eða ekki nægjanlegt er gerð krafa um árangur á stórmótum sem þykir hafa verið undir væntingum síðastliðin ár,“ segir í bréfinu.
Nú þurfi að stíga fast til jarðar ef íþróttafólkið eigi einhvern möguleika á að ná framförum. „Við biðjum um ykkar hjálp við að efla starfið svo það megi dafna og verða Reykjavík til sóma og unnt verði að skapa flottar fyrirmyndir.“