Margir helstu stjórnendur innan refsivörslukerfisins hafa verið orðaðir við embætti ríkislögreglustjóra sem auglýst var til umsóknar skömmu fyrir jól. Þeirra á meðal eru lögreglustjórar flestra lögregluumdæma landsins, héraðssaksóknari og forstjóri Fangelsismálastofnunar.

Dómsmálaráðherra gerði starfslokasamning við Harald Johannessen í lok síðasta árs eftir mikla gagnrýni á störf hans síðustu misserin en hann hafði gegnt embætti ríkislögreglustjóra í tæpan aldarfjórðung.

Í kjölfar starfsloka Haraldar var Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, settur í embætti ríkislögreglustjóra til bráðabirgða en hann mun hafa greint ráðherra frá því að hann hafi ekki hug á að sækjast eftir skipun í embættið.

Telja verður líklegt að aðrir starfandi lögreglustjórar á landinu hafi að minnsta kosti íhugað að sækja um starfið, en þau nöfn sem oftast eru nefnd úr hópi þeirra eru Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Halla Bergþóra Björnsdóttir. Páley Borgþórsdóttir í Vestmannaeyjum er einnig sögð hafa áhuga á embættinu en hvorki er vitað um hug Úlfars Lúðvíkssonar, formanns lögreglustjórafélagsins og lögreglustjóra á Vesturlandi, né Karls Inga Vilbergssonar, lögreglustjóra Vestfjarða. Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri Austurlands, er hins vegar að fara á eftirlaun og hefur staða hennar verið auglýst. Sterkur orðrómur var um að Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, myndi ljúka sínum starfsferli í sameinuðu lögreglustjóraembætti fyrir Suðurnes og Keflavíkurflugvöll en ekkert varð af sameiningunni um sinn og því ekki útilokað að Ólafur Helgi hafi hug á embættinu. Hann neitaði einn lögreglustjóra á landinu að undirrita vantraustsyfirlýsingu á Harald í kjölfar umdeilds viðtals sem hann veitti Morgunblaðinu í september síðastliðnum. Annað nafn hjá lögreglunni á Suðurnesjum hefur þó einnig verið í umræðunni um nýjan ríkislögreglustjóra, nafn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, saksóknara hjá embættinu.

Þeir sem Fréttablaðið ræddi við í gær og orðaðir hafa verið við embættið vildu ekki tjá sig opinberlega um áhuga á embættinu.

Ólafur Þór Hauksson

Ólafur Þór hauksson héraðssaksóknari.

Ólafur starfaði lengi sem sýslumaður á Akranesi en var skipaður sérstakur saksóknari í málum föllnu bankana árið 2009. Sjö árum síðar var hann skipaður héraðssaksóknari þegar það embætti var sett á fót árið 2016.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu.

Sigríður Björk hefur gegnt lögreglustjórastöðu frá 2009; fyrst á Suðurnesjum og svo á Höfuðborgarsvæðinu þar sem hún starfar enn. Hún var sýslumaður á Ísafirði frá 2002 til 2006 þegar hún fór til ríkislögreglustjóra og gengdi meðal annars stöðu aðstoðarríkislögreglustjóra á árunum 2007 til 2008.

Páll Winkel

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunnar.

Páll varð forstjóri Fangelsismálastofnunnar í ársbyrjun 2008. Hann hefur starfað í löggæslu- og refsivörslukerfinu frá því hann útskrifaðist úr lagadeild um aldamót. Hann var framkvæmdarstjóri Landsambands lögreglumanna um tveggja ára skeið áður en hann fór til ríkislögreglustjóra þar sem hann stýrði fyrst stjórnsýslusviði áður en hann var gerður að aðstoðarríkislögreglustjóra í maí 2007. Hann gengdi þeirri stöðu aðeins um hálfs árs skeið áður en hann fór í fangelsismálin.

Halla Bergþóra Björnsdóttir

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.

Halla Bergþóra hefur líkt og flestir sem nefndir eru til sögunnar, starfað í málaflokkum tengdum réttarkerfinu mestan hluta starfsævinnar. Hún var í átta ár í dómsmálaráðuneytinu en rak líka eigin lögmannsstofu og sinnti verjerndastörfum. Hún leysti hún Ólaf Þór Hauksson af í embætti sýslumanns á Akranesi þegar hann tók við embætti sérstaks saksóknara og gengdi hún því embætti þar til hún var skipaður lögreglustjóri á Norðurlandi eystra um mitt ár 2014.