Æðsti vísinda­maður Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), Sou­mya Swamin­at­han, hvetur fólk til að sýna stillingu gagn­vart Ó­míkron af­brigði kóróna­veirunnar og segir of snemmt að segja til um hvort þurfi að endur­hanna bólu­efni til að takast á við það.

Í við­tali við Reu­ters frétta­stofuna segir Swamin­at­han að ó­mögu­legt sé að spá fyrir um hvort Ó­míkron muni verða ráðandi af­brigði veirunnar á næstunni.

Af­brigðið hefur vakið miklar á­hyggjur frá því það greindist fyrst í Suður-Afríku í síðasta mánuði en af­brigðið er nú að finna í Asíu, Afríku, Ameríku, Mið­austur­löndum og í Evrópu. Ríkis­stjórnir ýmissa landa hafa hert tak­markanir á landa­mærum sínum eða meinað ferða­löngum frá á­kveðnum svæðum um inn­göngu vegna ótta við af­brigðið.

„Hversu miklar á­hyggjum ættum við að hafa? Við þurfum að vera við­búin og var­kár en við megum ekki ör­vænta, af því við erum í allt annarri stöðu nú en fyrir ári síðan,“ segir Swamin­at­han.

Hún segir af­brigðið þó vera mjög smitandi og vísar í gögn frá Suður-Afríku þar sem smit­tölur hafa verið að tvö­faldast dag­lega undan­farið.

„Delta stendur enn fyrir 99 prósent af smitum um allan heim. Þetta af­brigðið þyrfti að vera meira smitandi til að skáka því og verða ráðandi á heims­vísu. Það er mögu­legt en það er ekki hægt að spá fyrir um það,“ segir hún.

Heilbrigðisstarfsmaður í Þýskalandi meðhöndlar lyfjaglös með bóluefni Biontech/Pfizer.
Fréttablaðið/Getty

Enn margt á huldu um Ó­míkron

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, tók í svipaðan streng og Swamin­at­han í dag þegar hann sagði Delta enn vera stærsta vanda­málið í far­aldrinum en ekki Ó­míkron.

„Við megum ekki tapa okkur alveg í um­­ræðunni um Omíkron. Vanda­­málið okkar er Delta og við þurfum að halda á­­fram og fólk þarf að mæta í örvunar­bólu­­setningu,“ sagði Þór­ólfur í við­tali við Frétta­blaðið.

Enn er þó margt á huldu um Ó­míkron af­brigðið sem hefur nú greinst í fjölda landa á meðan svæði í Evrópu glíma enn við bylgjur af hinu betur þekkta Delta af­brigði. Swamin­at­han segist vonast til þess að Ó­míkron sé mildara af­brigði en það sé þó enn of snemmt að skera úr slíkt.

Þurfum ný bólu­efni á endanum

Yfir­maður neyðar­mála hjá WHO, Mike Ryan, segir engar vís­bendingar hafa komið fram sem benda til þess að breyta þurfi bólu­efnum til að sníða þau að Ó­míkron.

„Eins og staðan er nú erum við með mjög á­hrifa­rík bólu­efni sem eru að virka. Við þurfum að ein­blína á að dreifa þeim á sann­gjarnari máta. Við þurfum að ein­blína á að bólu­setja sem flest fólk í á­hættu­hópum,“ segir Ryan.

Ugur Sahin, fram­kvæmda­stjóri þýska lyfja­fyrir­tækisins BioN­Tech sem fram­leiðir bólu­efni á­samt Pfizer hefur sagt að fyrir­tæki hans ætti að vera að­lagað bólu­efni sitt til­tölu­lega fljót­lega ef til þess kemur. Þá segir hann að nú­verandi bólu­efni ættu að halda á­fram að veita vörn gegn al­var­legum sjúk­dómum af völdum kóróna­veirunnar þrátt fyrir stökk­breytingar.

„Ég held að á á­kveðnum tíma­punkti munum við þurfa ný bólu­efni gagn­vart þessu nýja af­brigði. Spurningin er hversu fljótt það þarf að vera til­tækt,“ segir Sahin.