Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 31. október 2020
06.00 GMT

Við mælum okkur mót að morgni dags á fallegu heimili Ásdísar og fjölskyldu við Tjörnina í Reykjavík. Heimilið sem er frá upphafi síðustu aldar hefur aðeins verið í eigu þriggja fjölskyldna og upprunalegu útliti þess verið haldið sérlega vel við. Rólegur andi er yfir heimilinu nú að morgni dags, en Ásdís trúir mér fljótt fyrir því að fram undan sé erfiður dagur.

Undanfarin ár hefur Ásdís rekið félagið EVU sem hún stofnaði ásamt Ástu Þórarinsdóttur árið 2007. Fyrstu árin voru þær aðallega að byggja upp Sinnum heimaþjónustu, sem eftir 12 ára rekstur gengur enn mjög vel.

Svo fóru þær í rekstur sjúkrahótels og í framhaldinu var Klíníkin Ármúla sett á laggirnar. Þegar sú starfsemi var orðin mótuð, sneri Ásdís sér að því að umbreyta rekstri Hótel Íslands yfir í heilsuhótel. Aðsókn í hótelgistingu í Reykjavík hefur nú nánast stöðvast og ákvörðun að loka hótelstarfseminni tímabundið er nú óhjákvæmileg. Þegar mest lét var starfsfólk á hótelinu um 60 talsins en var komið niður í 12 daginn sem við hittumst, en að þeim degi liðnum verða einungis eftir tveir í hlutastarfi.

Það dylst ekki að sú ákvörðun tekur á Ásdísi, sem mun verja því sem eftir lifir dags í að segja upp flestum af þeim starfsmönnum sem enn voru eftir.

Erfið ákvörðun að loka


„Við munum loka fram á nýtt ár og vonumst auðvitað til þess að þetta gangi sem hraðast yfir. En á meðan óvissan er algjör eru ekki forsendur fyrir öðru en að gera hlé á starfseminni og koma frekar tvíefld til leiks á nýju ári.“

Ásdís bendir á að árið 2019 hafi reynst ferðaþjónustunni erfitt vegna yfirvofandi vinnustöðvana og verkfalla, gjaldþrots WOW og kyrrsetninga MAX vélanna, en hún og hennar fólk hafi verið fullt bjartsýni í upphafi þessa árs.

„Við einsettum okkur að komast í gegnum þetta og vorum ákveðin í því að láta 2020 ganga. Frá og með mars hrundi ferðaþjónustan og í ágúst var í raun öll von úti um að ástandið færi skánandi. Í fyrsta lagi var landamærunum lokað sem var mikið áfall.

Í öðru lagi var allt sem heitir spa, wellness og veitingar, það sem gefur okkur sérstöðu sem heilsuhótel, sett í uppnám með reglulegum lokunum.

Í þriðja lagi var fólk hvatt til að ferðast ekki á milli landshluta, svo gestir sem ætluðu að heimsækja okkur í höfuðborginni, afbókuðu.

Við ætluðum engu að síður að reyna að halda opnu en þegar tilkynnt var nú í vikunni að valkvæðum aðgerðum væri frestað afbókuðu okkar síðustu gestir, en það eru einstaklingar sem fara í aðgerðir á Klíníkinni en gista á Hótel Íslandi.“

Uppsagnirnar erfiðastar

„Ég vona svo innilega að ég geti náð aftur saman þessu frábæra teymi, en ég óttast því miður að svo verði ekki. Í 18 mánuði hafa uppsagnir starfsfólks verið rauður þráður í mínu starfi,“ segir Ásdís klökk og tárin brjótast fram.

„Það er snúið að byggja upp yrirtæki en í 12 ár hafa þau verkefni aldrei haldið fyrir mér vöku því það er svo gaman að upplifa hugmyndir verða að veruleika. En það að láta fólk fara á tímum atvinnuleysis og óvissu, er það erfiðasta sem ég hef fengist við sem stjórnandi.”


„En það að láta fólk fara á tímum atvinnuleysis og óvissu, er það erfiðasta sem ég hef fengist við sem stjórnandi.”


Aðspurð um hvað hún geri til að komast í gegnum slíka tíma nefnir hún bókarskrifin. „Það er svo magnað að þegar manni líður eins og maður hafi enga stjórn á atburðarásinni, er mikil útrás að skrifa sögu þar sem maður hefur fullkomna stjórn á atburðum, mótar persónurnar og stýrir öllu því sem þær segja og gera,“ útskýrir hún og brosir út í annað en fjórða bók Ásdísar og fyrsta skáldsagan, Ein, er nú komin í forsölu á vefnum hjá Pennanum Eymundsson, en kemur í búðir eftir helgi.


Fékk mörg hundruð bréf


Bækur Ásdísar, Tvísaga og Hornauga sem komu út árin 2016 og 2018 vöktu gríðarlega athygli og þó sú fyrri hafi verið prentuð í níu þúsund eintökum er hún ófáanleg. Bækurnar eru byggðar á fjölskyldusögu Ásdísar og svo sannarlega átakanlegar og opinskáar á margan hátt.


„Fyrstu bók mína skrifaði ég fyrir rúmum 20 árum og fjallaði hún um leiðtoga í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum. Ég hef alltaf verið mjög upptekin af jafnvæginu milli opinbera lífsins og atvinnulífsins, tók bæði master í opinberri stjórnsýslu og MBA og langaði að skrifa bók sem sýndi fram á að þessir tveir geirar eru ekki jafn ólíkir og margir halda.

Svo skrifaði ég þessar tvær minningabækur, Tvísaga og Hornauga. Það var snúið að skrifa þær, en ég er ég ótrúlega þakklát mínum nánustu fyrir að hafa fengið stuðning til að ljúka þeim verkefnum. Viðtökurnar voru svo magnaðar, ég hef fengið mörg hundruð erindi frá ólíku fólki. Síðasta bréfið sem ég fékk var frá Kvennaathvarfinu, en þær voru að setja á laggirnar nýtt úrræði fyrir börn og sagði forstöðukona athvarfsins að það væri Tvísögu að þakka. Það færir mér mikla gleði að geta sagt sögur sem hafa áhrif til góðs.“


Í heimaþjónustu eftir vinnu


Ásdís Halla vildi nú skrifa skáldsögu og var með hugmynd sem hún vildi vinna út frá. Ásdís og viðskiptafélagi hennar, Ásta, settu eins og fyrr segir á laggirnar heimaþjónustuna Sinnum.

„Við vildum verða frumkvöðlar í heilbrigðistengdri þjónustu og fyrstu tvö árin var ég af og til í verkefnum á heimilum langveikra og aldraðra. Ég fór oftast undir lok skrifstofudags, hjálpaði fólki að taka lyfin sín, elda kvöldmat og undirbúa nóttina. Ég upplifði svo margt í þessu starfi sem hefur setið svo lengi með mér og mér fannst ég þurfa að skrifa um þennan veruleika eldra fólks sem er mikið eitt.“

Eftir að hafa stofnað fyrirtæki í heimaþjónustu og staðið vaktina sjálf langaði Ásdísi Höllu að skrifa um veruleika eldra fólks sem er mikið eitt. Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Hún segir einn mann sem hún heimsótti vera sér sérlega minnisstæðan. „Þegar ég setti upp svuntuna og undirbjó matinn fyrir hann, settist hann alltaf inn í stofu og lék á píanóið fyrir mig. Þetta voru svo yndislegar stundir og þegar ég var búin að elda bauð hann mér iðulega í dinner og við borðuðum saman,“ Ásdís hlær að minningunni sem er augljóslega hlý.

„Aðalmálið fyrir hann var ekki hvort ég hefði þrifið baðherbergið nægilega vel eða gengið frá þvottinum, fá lyfin eða að nærast, heldur að sitja með einhverjum, fá félagsskap og spjalla um lífið og tilveruna.“


Erfitt að skilja fólk eftir eitt


Nýja bókin heitir sem fyrr segir Ein og hefst á því að stúlka í heimaþjónustu kemur inn á heimili í Aflagranda og verður mjög brugðið.

„Í sama stigagangi eru sérstakir og óheppilegir hlutir að gerast og úr verður saga sem ég vona að, þó hún fjalli um hluti sem geta verið tragískir, sé forvitnileg og skemmtileg og fái fólk til að staldra við og velta þessum veruleika fyrir sér."

Ásdís segir oft hafa verið erfitt að kveðja skjólstæðingana og skilja þá eftir eina.

„Mig langaði að vera lengur og fannst þetta snúið. Ég held að margir sem starfa við heimaþjónustu finni fyrir þessu. Í flestum tilfellum á fólk góða aðstandendur og það eru ekki allir einmana þó þeir búi einir, en það eru það margir. Heimaþjónusta er svo lítið þróuð á Íslandi og við erum aðallega að horfa á þrif, næringu og böðun. Ég veit að mörg sveitarfélög eru að reyna að bæta úr en við þurfum að horfa mun meira á þetta félagslega. Ég varð að koma þessari sögu frá mér vegna þessa.“


Við lögðum allt á borðið


Raunveruleikinn er oft ótrúlegri en skáldskapur og talið færist að muninum á fyrri bókum Ásdísar og þessari nýjustu, skáldsögunni.

„Ég hugsa að þetta sé mín hversdagslegasta bók,“ segir Ásdís og hlær. „Ég hefði aldrei skrifað skáldsögur eins og Tvísögu og Hornauga því þær hefðu einfaldlega ekki verið nægilega trúverðugar.“


Í þeim bókum koma meðal annars fram sögur um ástir, ofbeldi, dauða, rangfeðrun, alkóhólisma og eiturlyfjanotkun en fyrst og fremst er um að ræða hreinskilnar og einlægar frásagnir af lífi fjölskyldu á Íslandi, sögur sem fleiri geta klárlega tengt við.


„Margir eru á þeirri skoðun að maður eigi ekki að opinbera sig með þessum hætti. Ég skil að það er ekki allra og hentar ekki öllum. En þetta er mín leið og þetta er okkar leið. Mín fjölskylda valdi að gera þetta með þessum hætti og við erum mjög glöð með það. Þetta styrkti böndin og færði okkur nær hvert öðru. Þetta dró úr ,,við” og ,,þið” tilfinningunni sem oft ríkir í alkóhólískum fjölskyldum; mömmulið og pabbalið, þessi á móti hinum og allt það. Við lögðum allt á borðið og töluðum um þessar tilfinningar, sem gerði okkur sterkari. Þegar systkini mín lásu sögu mömmu þökkuðu þau mér fyrir að hafa skrásett hana, enda útskýrir hún mjög margt sem síðar átti sér stað.“


„Margir eru á þeirri skoðun að maður eigi ekki að opinbera sig með þessum hætti."


Ósátt við blaðafyrirsagnir


Í bókinni Hornauga fjallar Ásdís um atburðarásina þegar hún kynnist föðurfjölskyldu sinni fyrst, á fullorðinsárum.

„Ég skrifa bókina til að vinna úr áfalli sem þekkt er að einstaklingar geti orðið fyrir, þegar þeir horfa í augun á helmingi gena sinna í fyrsta sinn. Það verður ákveðið genetískt umrót sem ég ætla ekki að reyna að útskýra fyrir þeim sem ekki hafa upplifað. En ein ástæða þess að það er gott að gera svona hluti upp með því að skrifa mjög ítarlega um þá í bók, er að þá hefur maður ekki þörf fyrir að tala um það aftur. Og alls ekki í blaðaviðtölum ár eftir ár. Af tillitssemi við sjálfan sig og sína nánustu gerir maður það í eitt skipti og bara í eitt skipti fyrir öll,“ segir hún ákveðin og heyra má að hún er ósátt við blaðafyrirsagnir sem birtust um málið fyrir tveimur árum síðan.


Fær ekki að heimsækja pabba


Samband Ásdísar og móður hennar er náið, hún er orðin 81 árs, og faðir hennar hefur nú dvalið á Hrafnistu í tæpa þrjá mánuði.

„Vegna COVID hef ég aldrei fengið að heimsækja hann. Það er auðvitað sárt og það var erfitt að halda upp á áttræðisafmæli hans á dögunum með því að standa fyrir neðan svalirnar á hjúkrunarheimilinu og syngja, án þess að fá að faðma hann. Hann hefur alltaf verið til staðar fyrir okkur og það er mjög erfitt að vera ekki til staðar fyrir hann þegar á reynir í hans veikindum.

En það er skylda okkar að verja þá sem eru veikastir, svo það hvarflar ekki að mér að krefjast þess að fá að fara til pabba og bera mögulega ábyrgð á því að bera smit inn á hjúkrunarheimili. Á þessum tímum er mikilvægast að verja sjúklinga og eldra fólk og mér finnst til fyrirmyndar að sjá hvernig að því er staðið á Hrafnistu. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að of langt hafi verið gengið í að lama ýmis önnur svið samfélagsins,“ segir hún.


„Hann hefur alltaf verið til staðar fyrir okkur og það er mjög erfitt að vera ekki til staðar fyrir hann þegar á reynir í hans veikindum."


Ásdís þurfti ung að horfa upp á hræðileg vandamál á heimili sínu, tengd neyslu og ofbeldi og tók snemma ákvörðun um að neyta aldrei áfengis. Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Kraftaverk að fá að hitta lífsförunaut


Ásdís og eiginmaður hennar, Aðalsteinn Jónasson, kynntust í Háskóla Íslands þegar Ásdís var aðeins 19 ára gömul, þau stofnuðu fljótlega fjölskyldu og eiga þau þrjú börn og er alltaf áratugur á milli barna.

„Jónas, okkar elsti, kom í heiminn þegar ég var 21 árs og ég var svo innilega tilbúin. Þegar ég hafði fundið lífsförunautinn kom allt í einu að því að mig langaði í barn. Ég hafði ekki áður hugsað út í barneignir og átti aldrei sem stelpa drauma um brúðkaup í hvítum kjól.

Ég var ekkert að pæla í neinu svoleiðis og meira að segja hafði mamma áhyggjur af því að ég myndi aldrei almennilega rækta tilfinningasamband við einhvern lífsförunaut, því ég var mjög lokuð og hleypti fáum raunverulega að mér. En svo kynnist ég Aðalsteini og þá breyttist allt. Við eignuðumst Jónas sem varð þrítugur nú í ár og á von á okkar fyrsta barnabarni með sinni heittelskuðu.“

„Maður eiginlega upplifir það betur með hverju ári hversu mikið kraftaverk það er að fá að hitta lífsförunaut. Það eru mín mestu forréttindi og svo mikil forréttindi að ég er ekki alltaf viss um að ég eigi þau skilið. Að fá að eignast svona maka breytir öllu lífinu. Í góðu hjónabandi þar sem ríkir öryggi og traust verður til æðruleysi sem er svo gott að fá að njóta.“

Tvítugur sonur þeirra hjóna býr í kjallaraíbúðinni ásamt kærustu og 10 ára heimasætan gengur í Landakotsskóla.

„Örverpið kom í heiminn þegar ég var að verða 42 ára og ég er eiginlega svolítið eins og amma núna með hana. Ég finn alveg að ég hef slakað töluvert á í uppeldinu.“

Ásdís hefur gegnt fjölmörgum ábyrgðarstöðum, allt frá því að vera fyrsta konan til að gegna ýmsum stöðum eins og að vera formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, bæjarstjóri í Garðabæ og forstjóri BYKO.

„Þó að sumum finnist þetta kannski ólík störf þá eru viðfangsefnin áþekk. Hvert starf snýst um að gera eitthvað gott, sem hefur jákvæð áhrif í samfélaginu. Það sama gildir um bækurnar. Ég skrifa þær í þeirri von að eftir lesturinn líti einhverjir á tilveruna frá öðru sjónarhorni en þeir eru vanir. “


Hefur aldrei neytt áfengis


Ásdís Halla hefur aldrei notað áfengi eða tóbak og er það ákvörðun sem var tekin snemma. „Mamma tók hana fyrir mig,“ segir hún og hlær. „Mamma sagði að í mínu tilviki væri það ekki ráðlegt, sem ég held að hafi verið rétt hjá henni. Það er nú sagt að þó að alkóhólistagenið hafi ekki fundist, þá skýri samspil gena og félagslegra aðstæðna oft að fólk drekki illa."


„Mamma sagði að í mínu tilviki væri það ekki ráðlegt, sem ég held að hafi verið rétt hjá henni."


Þessi ákvörðun mótaði mig eflaust. Ég er mjög mikið innan um fólk og á heimilinu er alltaf eitthvað til í vínskápnum. Ég hika ekki við að búa til stundir þar sem vín er haft um hönd og það hefur aldrei truflað mig. Fólk verður oft mikið opinskárra þegar það drekkur vín, en svo rennur af því og það lokast aftur. Ég varð hins vegar smám saman opinskárri með árunum án þess að lokast aftur.

Ég hef skrifað mjög opinskáar bækur, eins er ég opinská í störfum mínum og vil yfirleitt ræða hlutina. Það er kannski vegna þess að ég hef edrú þurft að segja og gera hluti sem aðrir gera kannski bara undir áhrifum.“


Horfði upp á hræðilega hluti


Ásdís segist ung hafa áttað sig á því að áfengi væri ekkert til að fíflast með.

„Bræður mínir voru svo ungir þegar þeir lentu í alvarlegum vandræðum og ég var svo ung þegar ég horfði upp á þessi hræðilegu vandamál inni á heimilinu: neyslu, áföll og ofbeldi, glæpi, fíkn og fíkniefni. En þeir voru svo frábærir bræður að þeir sögðu mér alltaf að láta þetta ekki hvarfla að mér. Þeir lögðu sig fram um að hvetja mig til þess að halda mig á beinu brautinni.“


„Bræður mínir voru svo ungir þegar þeir lentu í alvarlegum vandræðum og ég var svo ung þegar ég horfði upp á þessi hræðilegu vandamál inni á heimilinu: neyslu, áföll og ofbeldi, glæpi, fíkn og fíkniefni."


Aldrei hætta að vinna


Móðir Ásdísar setti miklar kröfur á hana. „Henni fannst ég örugglega bara standa undir þeim. Þess vegna hef ég aldrei upplifað það sem val að glíma við eitthvað stórt og snúið, það er bara það sem ég geri,“ segir hún, en viðurkennir um leið að sú áskorun sem hún stendur frammi fyrir nú, að leggja árar tímabundið í bát, hafi reynst henni erfið.

„Æðruleysisbænin er leiðarljósið. Með svellkaldan huga verður maður að horfast í augu við það sem maður getur ekki stjórnað og ég er að ná sáttum við það að ég get ekki stjórnað heimsfaraldi. En sem betur fer höfum við mætt skilningi hjá bankanum og fasteignafélaginu Reitum, þar sem er gott fólk sem áttar sig á því að við þurfum öll að standa saman til að búa okkur undir framtíðina. Við opnum aftur á nýju ári og ég er mjög bjartsýn á framtíðina í íslenskri ferðaþjónustu, þó að við vitum ekki alveg hvenær hún bankar aftur upp á.“

Ásdís segist vonast til að starfsferillinn sé rétt að hefjast. „Ég hef óbilandi starfsþrek, áhuga, ástríðu, hugmyndir og löngun til að halda áfram að gera eitthvað sem skiptir máli. Hvaða farartæki ég nýti til þess til lengri framtíðar hef ég þó ekki hugmynd um.

Einn frændi minn, Kristján Tómas Ragnarsson, læknir í Bandaríkjunum, kom að máli við mig þegar það kom í ljós hverra manna ég var raunverulega og að við værum náskyld. Hann þekkir genin mín vel og sagði: „Gerðu sjálfri þér og þínum nánustu greiða og hættu aldrei að vinna, því daginn sem þú lætur af störfum þá verður þú til vandræða. Og ég er að hugsa um að sýna fólkinu mínu þá tillitssemi að hætta aldrei að vinna,“ segir Ásdís að lokum í léttum tón.

Athugasemdir