Patti, Binni, Bassi, Gunnar og Sæ­mundur hafa slegið í gegn í raun­veru­leika­þáttunum Æði. Þeir verða með vagn í Pride-göngunni sem fer fram í dag og eru sér­lega spenntir. Strákarnir eru allir samkynhneigðir og hafa upplifað fordóma vegna kynhneigðar sinnar.

„Ég fann mikið fyrir fordómum þegar ég byrjaði með opið Snap­chat árið 2016. Þá fékk ég leiðinleg skilaboð og það var verið að nota orðið „hommi“ á niðrandi hátt um mig. Ég tók því mjög illa fyrst því ég hafði aldrei upplifað svona leiðindi í lífinu fyrr en ég byrjaði á samfélagsmiðlum,“ segir Binni. „Ég fann samt og vissi að það væri mjög mikilvægt að ég hefði byrjað á Snapchat og opnað mig um samkynhneigð og að það væri í lagi að mála sig og allt það,“ bætir hann við.

„Ég hef upplifað svolitla fordóma í gegnum árin. Aðallega þegar við vorum yngri, þá voru krakkar alltaf að kalla okkur homma, stelpur, fagga og ýmislegt fleira og það hafði mikil áhrif á mig þegar ég var að finna sjálfan mig,“ segir Gunnar.

Sæmundur segist einnig hafa upplifað fordóma, mestir hafi þeir verið þegar hann var lítill en að í raun og veru hafi þeir ekki haft mikil áhrif á hann. „Þegar ég var yngri var oft verið að kalla okkur nöfnum af því við vorum svo kvenlegir og það var pínu leiðinlegt. En í dag hef ég ekki fundið fyrir fordómum í mjög langan tíma og fólk er yfirleitt bara mjög næs.“

Patti segir sömu söguna, að í grunnskóla hafi hann verið kallaður hommi og faggi en einnig að í menntaskóla hafi hann upplifað mikið áreiti frá fótboltastrákum í Menntaskólanum á Akureyri. „Það er bara eitthvað sérstakt í gangi hjá svona fótboltastrákum. Þeir eru langverstir þegar kemur að þessu,“ segir hann.

„Já, ég er sammála, fótboltastrákar og aðrir hommar, en ég held að það sé hundrað prósent líka vegna afbrýðisemi,“ bætir Bassi við.

„Það er fullt af fordómafullu fólki á Íslandi en ég held að við sleppum vel og höfum gert það undanfarin ár af því við erum Æðistrákarnir,“ segir Patti. „Fólk veit hverjir við erum og hvernig við erum svo það býst við að við séum öðruvísi en margir strákar, klæðumst „stelpufötum“ og málum okkur og svona. Ég held að fólk myndi frekar tala um það ef ég væri ómálaður í gallabuxum og hettupeysu,“ bætir hann við.

„Maður tekur sérstaklega eftir fordómum því meira sem maður ferðast um heiminn,“ segir Bassi. „Ég hef alveg klætt mig öðruvísi þegar ég er í útlöndum. Reyni að vera í hettupeysu og helst bara með einhverja píu til að leiða. Fann mjög mikið fyrir því þegar við vorum í Prag, bara hvernig var horft á mig,“ segir hann.

„Ég fann líka fyrir þessu í Prag. Til dæmis þegar ég fór á kvennaklósettið. Ég nota það alltaf alls staðar, ekki af því ég upplifi mig sem konu heldur af því að mér finnst það bara betra og það hefur aldrei verið vesen en í Prag var eins og ég væri ógeðslegur og væri að gera eitthvað rangt. Konurnar voru bara alls ekki næs við mig,“ segir Patti.