Háfjallakvillar af margvíslegu tagi hrjá æ fleiri landsmenn eftir því sem fleiri þeirra klífa hæstu fjöll heimskringlunnar á borð við Atlasfjöllin í Marokkó, Kilimanjaró í Afríku og Himalajafjöllin í Nepal, en ferðir af því tagi hafa mjög færst í vöxt á síðustu árum.

Af þessum sökum hafa fimm læknar tekið sig saman og safnað áhugaverðum upplýsingum um téða kvilla og meðferðir við þeim, svo og forvarnir, en fimmmenningarnir eru allir áhugamenn um útivist og hafa tekið þátt í háfjallaleiðöngrum erlendis.

„Þetta snýst ekki bara ferðalög á hæstu fjöll, heldur líka skíðaferðir í Alpana og Klettafjöllin, en þar komast menn í býsna mikla hæð og kynnast hæðarveikinni, án þess kannski að gera sér grein fyrir henni,“ segir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, fjallaleiðsögumaður og einn höfunda kversins. Fjölmargir sjúkdómar geta gert vart við sig í mikilli hæð yfir sjávarmáli, jafnt háfjallaveiki, sem er algengasta birtingarform hæðarveiki, sem og lífshættulegir sjúkdómar á borð við hæðarlungnabjúg og hæðarheilabjúg.

„En algengustu kvillarnir samfara mikilli hæð eru hausverkur, lystarleysi, meltingartruflanir og almennur slappleiki sem margir halda að sé bara flensa,“ segir Tómas enn fremur og minnir á að áfengi, svo sem eins og í skíðaferðum, hjálpi fráleitt til í þessum efnum.

Kverið er ríkulega myndskreytt og gefið út í samvinnu við Ferðafélag Íslands og útivistarverslanirnar Fjallakofann, Everest og 66°Norður, en allur ágóði af sölu þess rennur til stígagerðar á hálendi Íslands.