Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, vekur athygli á því að fyrrverandi framkvæmdastjóri og annar stofnenda Íslensku orkumiðlunar sé aðstoðarmaður ráðherra Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi tengdasonur formanns flokksins og fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra réð nýlega Magnús Júlíusson sem aðstoðarmann sinn. Magnús gegndi stöðu forstöðumanns orkusviðs hjá N1 til desember í fyrra en áður stofnaði hann og rak Íslenska orkumiðlun sem var seld til Festi snemma árs 2020. N1 réð svo Einar Sigurstein Bergþórsson í stöðu forstöðumanns orkusviðs N1.

„Það vekur alveg merkilega litla athygli að Magnús Júlíusson sem stýrði Íslenskri orkumiðlun (nú er N1 orka) sem svindlaði á neytendum og misnotaði reglur um orkusölu til þrautavara er einmitt nýráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu. Sami Magnús er einmitt fyrrverandi tengdasonur Bjarna og var skipaður í starfshóp um Orkustefnu til 2050 af fjármálaráðherra. Já og svo var hann auðvitað formaður SUS. Merkilegt hvernig tekist hefur að horfa algjörlega framhjá því að arkitektinn er aðstoðarmaður ráðherra,“ skrifar Atli Þór á Facebook.

Hann segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé ansi áhugaverður angi af þessu merkilega máli. N1 Rafmagn hefur beðist afsökunar og segist ætla að endurgreiða viðskiptavinum sínum mismun á uppgefnum taxta og þrautavarataxta frá 1. nóvember síðastliðnum. Orkustofnun rannsakar hvort N1 Rafmagn hafi verið heimilt að rukka suma viðskiptavini sem höfðu komið til fyr­ir­tæk­is­ins í gegn­um svokallaða þrauta­vara­leið mun hærra verð en var auglýst.

„Ég er ekki að segja að Magnús megi ekki vera aðstoðarmaður ráðherra en það verður að vekja athygli að framkvæmdastjóri þessa fyrirtækis, sem er nýráðinn aðstoðarmaður ráðherra, tók þátt í mynda orkustefnu til 2050 og var skipaður af fjármálaráðherra, en hann var einu sinni tengdasonur sama ráðherra og formaður SUS,“ segir Atli Þór.

„Ráðherra mætti svara fyrir um að hvaða leyti ætlar Magnús að ráðleggja ráðherra?“

Atli Þór Fanndal hjá Íslandsdeild Transparency International.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Atli Þór segir margt jákvætt við umræðuna á N1 málinu. Viðbrögð eftirlitsaðila hafi verið til fyrirmyndar.

„Það er jákvætt að eftirlitsstofnanir eru að bregðast við og tiltölulega hratt. Það má gagnrýna að það hafi ekki verið gert fyrr þrátt fyrir að málið hafi verið umræðu hjá samkeppnisaðilum N1. En það er ótrúlega merkilegt að það sé verið að bregðast við,“ segir Atli Þór.

Málið snýst í grunninn um að N1 Rafmagn hafi mögulega misnotað samkeppnisreglur sem eru til staðar til að verja neytendur.

„Þetta er svindl hvort sem þeir hafi tæknilega mátt gera þetta. Fyrirtækið hannar einhverja verðskrá eða aðgerð til að búa sig til aðstöðumun í kerfi sem er ætlað að verja neytendur. Hvernig sem niðurstaðan verður í þessu máli vitum við öll að þetta er svindl.“

Líkt og hefur verið fjallað um í fréttaskýringum Kjarnans og Stundarinnar var verð­mat Íslensku orkumiðlunar að miklu leyti við­skipta­vild upp á 600 millj­ón­ir. Atli Þór segir að leiða megi líkur að viðskiptavildin sé annars vegar stórir aðilar eða stoðkúnnar og svo 18 þúsund þrautavarakúnnar.

„Þetta eru gefins kúnnar sem fyrirtækið þarf ekki að hafa fyrir að ná í.“

Ekki túlkun að svindl hafi átt sér stað

Aðspurður um afsökunarbeiðni framkvæmdastjóra N1 vegna málsins segir Atli Þór það var sannarlega

„Þetta var eins masterclass í hvernig þú átt ekki að biðjast afsökunar. Maður verður að hrósa íslensku PR fólki fyrir að hafa samið svona furðulega afsökunarbeiðni,“ segir Atli Þór og hlær.

Fyrirtækið hefur gefið út að það muni endurgreiða viðskiptavinum frá því í nóvember í fyrra og Atli Þór veltir fyrir sér hvers vegna fyrirtækið hafi valið þessa dagsetningu.

„Það eru merki um að þetta svindl hafi verið í gangi miklu lengur. Ef þau ætla að fara þessa vegferð, þá ættu þau að gera það í alvörunni. Það er ekki túlkun viðskiptavina að á þeim hafi verið svindlað, það var svindlað á fólki.“