Aðstoðarmaður borgarstjóra Reykjavíkur var með 19,3 milljónir króna í heildarlaun í fyrra. Þetta kemur fram í svari skrifstofu borgarstjóra við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, á fundi borgarráðs í dag.

Í svarinu segir að aðstoðarmaður borgarstjóra, Pétur Krogh Ólafsson, hafi verið með 19.255.000 krónur í laun og launatengd gjöld árið 2017 og 19.320.000 í fyrra. Launin taki mið af launum aðstoðarmanns forsætisráðherra. Ferðakostnaður Péturs var 1,1 milljón árið 2017 og 712 þúsund krónur í fyrra.

Ekki er tekið fram hvað aðstoðarmaður borgarstjóra er með í mánaðarlaun. Í svarinu er aðeins talað um heildarlaun, þ.e.a.s. laun og launatengd gjöld. Eru mánaðarlaunin rúmar 1,3 milljónir króna á mánuði.

Kolbrún segir málið alls ekki persónulegt og henni líki vel við Pétur. Það sem hún velti fyrir sér er hvort slík laun séu nauðsynleg miðað við fjárþörf ýmissa annarra verkefna hjá borginni.

„Starf aðstoðarmanna borgarstjóra hefur verið við líði í aldarfjórðung. Spyrja má hvort þetta starf sé nauðsynlegt, í fyrsta lagi er spurning hvort borgarstjóri sjálfur sé ekki fullfær um að annast margt af þessu verkefnum sjálfur eða fela skrifstofu borgarstjóra eitthvað af þessum verkefnum en þar starfa fjöldi sérfræðinga,“ segir Kolbrún í bókun sinni.

„Aðstoðarmaður borgarstjóra ferðast mikið með borgarstjóra. Ferðakostnaður aðstoðarmanns 2018 er 712 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá að fetta fingur út í þetta og með því leggja áherslu á að nota mætti þetta fé sem embættið kostar í beina þágu við borgarbúa en víða í borginni er þjónustu ábótavant.“