Björgunarsveitir hafa sinnt fjölda verkefna í dag og manna lokanir vegna veðurs.

Karen Ósk Lárusdóttir, fjölmiðlafulltrúi Landsbjargar, segir að þau verði við störf fram á kvöld og jafnvel fram á morgun en seinni partinn í dag tekur gildi gul veðurviðvörun.

„Það er nóg af verk­efnum. Við erum búin að sinna yfir 60 verk­efnum. Það eru um 40 manns í þessum verkefnum núna, en þegar mest var voru um 70,“ segir Karen Ósk.

Hún segir að björgunarsveitarfólk sé bæði að sinna verk­efnum í húsi, sem er að­gerða- og svæðis­stjórn, en svo sé fólk á vett­vangi og flestir sé að að­stoða fólk sem hefur lent í veseni með bíla sína, annað hvort hafa fest þá eða þurft að skilja þá eftir.

Sumir komast ferða sinna en aðrir ekki.
Fréttablaðið/Valli

Víða lokað

Eins og greint hefur verið frá í dag þá er færð erfið og mikil snjó­koma. Tals­vert er um vega­lokanir en sem dæmi eru núna lokað um Hellið­heiði, Þrengsli, Kjalar­nes og Mos­fells­heiði. Karen segir að þau hvetji fólk til að fara ekki af stað nema þau séu í vel út­búnum bílum til vetrar­aksturs.

„Það er aðal­málið.“

Hún segir að flest verk­efnin hafi verið í efri byggðum borgarinnar en svo séu þau einnig að manna allar helstu lokanir og munu gera það í dag og fram á kvöld.

„Við erum við Vestur­lands­veg og Hellið­heiðina, báðum megin,“ segir Karen Ósk.