Hjálparstarf kirkjunnar mun aðstoða efnalitlar barnafjölskyldur nú í upphafi skólaárs við að nálgast vetrarfatnað, skólatöskur, ritföng og íþróttavörur ásamt öðru sem til þarf í upphafi leik– og grunnskólaárs.

Aðstoð verður boðin á Háaleitsbraut 66 á neðri hæð Grensáskirkju, dagana 18., 19. og 23. ágúst næstkomandi, klukkan 10 – 12.

Að sögn Kristínar Ólafsdóttur, fræðslufulltrúa er mikilvægt að aðstoða börn sem búa við fátækt og eru útsett fyrir félagslegri einangrun en það getur valdið þeim sársauka og haft langvarandi félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar.

„Í fyrra komu til okkur í kringum 200 fjölskyldur og við búumst við því að allavega svo margar eða fleiri komi í ár,“ segir Kristín en hjálparstarf eins og þetta hefur farið fram í byrjun skólaárs undanfarin ár  „Mörg undanfarin haust hefur Hjálparstarf Kirkjunnar aðstoðað foreldra í upphafi skólaárs um það sem börnum vantar helst. Þetta hefur tekið breytingum eftir því sem sveitarfélögin hafa útvegað meira af námsefni og ritföngum. En það vantar þó alltaf skólatöskur og vetrarfatnað,“ segir Kristín.

Sjá fram á aukningu í ár

Aðspurð um það hvort mikil aukning sé í fjölda þeirra sem leita sér aðstoðar segir Kristín að undanfarin ár hafi verið sveiflukennd en hjálparstarfið búist við aukningu í ár.

„Í ljósi efnahagsaðstæðna núna, verðbólgu, hækkandi leiguverðs og hækkandi verðs á matarkörfunni þá búum við okkur undir að það komi fleiri,“ segir Kristín sem segir að komandi vetur sé einnig áhyggjuefni með tilliti til efnahagsástandsins „Þá verður mögulega enn erfiðara fyrir fólk að ná endum saman,“ segir Kristín.

Bjóða upp á fjölbreytta aðstoð

Kristín segir að aðstoð frá samtökunum einskorðist þó ekki við leik- og grunnskólabörn heldur séu einnig úrræði fyrir framhaldsskólanema „samhliða þessu erum við að aðstoða ungmenni sem eru í framhaldsskóla, eða námi sem enn ekki lánshæft. Þannig að við erum að aðstoða þau líka með efniskostnað og jafnvel að greiða skólagjöld og fleira,“ segir hún

Hjálparstarfið muni svo einnig snúa að almennum þörfum fjölskyldna „við munum svo halda áfram með aðstoð núna í vetur en fólk hefur verið að fá hjá okkur inneignarkort fyrir matvöru til dæmis. Þannig er þetta bara einn liðurinn í því að aðstoða efnaminni barnafjölskyldur,“ segir hún.