Þórður Már Jóns­son lög­maður er gáttaður á gagn­rýni Más Kristjáns­sonar, yfir­læknis á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans, á við­brögð land­læknis vegna kórónu­veiru­smita á Landa­koti. For­eldrar Þórðar veiktust bæði vegna hóp­smits á spítalanum.

„Það eru þarna spurningar sem er gífur­lega mikil­vægt að fá svör við. Þetta er al­gjört regin­hneyksli í raun og veru eins og ég lít á þetta og því mikil­vægara að þeir svari þessu,“ segir Þórður við Frétta­blaðið.

Þórður lýsti máli for­eldra sinna í Face­book færslu fyrir tveimur dögum síðan. Þar lýsti hann því hvernig 80 ára gömul móðir hans smitaðist eftir að hafa verið lögð inn fót­brotin á Landa­kot. Í kjöl­farið hafi faðir hans smitast. Smit föður hans hafi þó ekki komið í ljós fyrr en syst­kin tóku á­kvörðun um að senda hann í sýna­töku.

Syst­kinin kvarta sáran undan upp­lýsinga­gjöf al­manna­varna vegna málsins og varpa í færslunni fram spurningum sem þau vilja svör við.

Þórður segir að­spurður að móðir sín sé furðu­brött en með maga­veikindi vegna smitsins. Faðir hans sé hins vegar verri og að staðan verði tekin í dag á því hvort leggja þurfi hann inn á spítala vegna veikindanna.

Meðal þess sem syst­kinin vilja fá svör við er hvað hafi farið úr­skeiðis sem leitt hafi til smitsins. Þá vilja þau vita hvort upp­tök smitsins verði rann­sakað til hlítar og hvort til standi að hafa sam­band við þá sem hafa verið á Landa­koti í vikunni.

Samstaðan hljóti að snúast um sannleikann

Már Kristjáns­son, yfir­læknir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spítalans, segist ívið­tali við Morgunblaðið vera ó­sáttur við að til greina komi að land­læknir rann­saki hóp­smitið sem al­var­legt at­vik.

„Það gengur alveg gegn því sem sagt hefur verið um sam­stöðu í bar­áttunni við þennan far­aldur,“ sagði Már meðal annars. Ekki væri út­lit fyrir að um neitt glæp­sam­legt hefði verið að ræða né nokkurn mis­brest í starf­semi Landa­kots.

„Ég er bara mjög hissa,“ svarar Þórður að­spurður hvernig um­mæli Más blasi við honum. „Ég hélt þeir myndu bara fagna því að það verði rýnt ofan í á­stæður þess að þetta gerðist í stað þess að það eigi bara allir að standa saman og það eigi ekki að ræða það sem gerðist.“

Þórður undrast að Már setji málið upp sem spurningu um sam­stöðu. „Ætti ekki sam­staðan ein­mitt að snúast um það að rann­saka hvað gerðist? Ég bara skil ekki svona rök,“ undir­strikar hann. „Þetta eru náttúru­lega hátt í hundrað manns sem hafa smitast á Landa­koti og eftir­fylgnin er í molum. Að það eigi ekki að rann­saka þetta, maður er bara hissa.“

Mamma "fagnaði" 80 ára afmæli sínu á Landspítala, vegna slæms beinbrots, um daginn og var svo flutt á Landakot. Núna á...

Posted by Þórður Már Jónsson on Sunday, 25 October 2020