Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir óboðlegt að Reykjanesbrautin hamli flugþjónustu í Keflavík. Hann hefur kallað saman sérstakan vinnuhóp til að skoða það hvernig er hægt að koma í veg fyrir að þær aðstæður sem sköpuðust í vikunni komi upp aftur.
„Það er ófært að á meðan að millilandaflugvöllurinn er opinn þá séu einhverjar aðrar aðstæður sem komi í veg fyrir að það sé hægt að nota hann,“ segir Sigurður Ingi á Fréttavaktinni í kvöld.
Spurður hvers vegna innviðirnir hafi brugðist segir hann að veðrið hafi verið óvenjulegt og að margir þættir hafi spilað saman.
„En svo er þetta líka eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við og við höfum þegar gripið til ráðstafana hér í ráðuneytinu,“ segir Sigurður Ingi og að vinnuhópurinn sem eigi að skoða þetta eigi að skila af sér fljótt.
Sigurður Ingi segir að hann hafi sjálfur verið veðurtepptur á Suðurlandi á meðan þessu öllu stóð. Hann segir málið ekki einfalt en að við séum á Íslandi og að það muni koma snjór.
„Það geta komið upp aðstæður þar sem við getum ekki haldið opnu öryggisins vegna en við getum hins vega rekki sætt okkur við að það sé ekki opið svona lengi,“ segir hann og að það komi fjölmargar leiðir til greina en að sé tilgangur vinnuhópsins að skoða hvaða leið sé best að fara.
„Það eru bílarnir sem teppa moksturinn og veginn,“ segir hann og að fjöldi ferðamanna valdi stærra vandamáli en á árum áður en að það sé verkefni sem við verðum að takast á við.
Viðtalið er hægt að horfa á hér að neðan.