Eftir þrjá­tíu og þriggja tíma að­gerð hafa þriggja ára sam­tengdu tví­burarnir Bernar­do og Arthur Lima verið að­skildir. Höfuð og heilar drengjanna voru vaxin saman og því var um sér­stak­lega á­hættu­sama að­gerð að ræða. Sky News greinir frá þessu.

Að­gerðin var fram­kvæmd í Brasilíu, þaðan sem drengirnir eru, af breska barna­skurð­lækninum Noor ul Owa­se Jeelani en skurð­læknar eyddu mörgum mánuðum í að prófa að­ferðir með sýndar­veru­leika áður en drengirnir fóru í hina raunverulegu aðgerð.

Jeelani lýsti að­gerðinni sem „miklu af­reki.“ Að­gerðin var að miklu leiti fjár­mögnuð af Gemini Untwine­d en Jeelani sagði árangurs­ríkan að­skilnað drengjanna vera dæmi um hversu dýr­mætt starf sam­takanna er, en þeirra helsta verk­efni er að að­skilja sam­tengda tví­bura.

Sam­tengdir tví­burar fæðst í einni af hverjum tvö hundruð þúsund fæðingum. Stór hluti sam­tengda tví­bura deyja við fæðingu og er sjald­gæft að þeir lifi lengur en nokkur ár. Til eru fleiri til­felli af kven­kyns tví­burum sem vaxnir eru saman, eða um 70 prósent af öllum til­fellum.

Ný fram­tíð fyrir drengina

„Við höfum ekki einungis tryggt strákunum og fjöl­skyldu þeirra nýja fram­tíð, við höfum búið til teymi sem hefur getu og sjálfs­traust í að takast á við svona flókna að­gerð með far­sælum hætti aftur í fram­tíðinni,“ sagði Jeelani.

Læknir á sjúkra­húsinu sagði að­gerðina breyta lífi strákanna, en sjúkra­húsið Insti­tu­to Esta­du­al do Cerebro Pau­lo Niemeyer, hefur að mestu séð um strákana síðustu tvö og hálft ár. Læknirinn segir strákana hafa orðið hluti af fjöl­skyldu starfs­manna á sjúkra­húsinu.

Drengirnir eru elstu sam­tengdu tví­burarnir með sam­vaxin höfuð sem eru að­skildir.

Báðir drengirnir eru á bata­vegi en við tekur sex mánaða endur­hæfing.