Fíkni­efna­markaðurinn er mjög stór á Ís­landi og ó­lík­legt er að sú hald­lagning sem lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu greindi frá í vikunni hafi mikil á­hrif á markaðinn. Tíma­bundið gæti verð á fíkni­efnum hækkað og eymd vímu­efna­not­enda aukist.

„Þetta er það stór hald­lagning að hún gæti skapað tíma­bundna þurrð á markaðnum. Hjá þeim sem eru vímu­efna­sjúk­lingar gæti orðið erfiðara að þreyja þorrann,“ segir Helgi Gunn­laugs­son, prófessor í af­brota­fræði við Há­skóla Ís­lands.

Evrópu­sam­bandið reiknar með því að Ís­lendingar kaupi ó­lög­leg fíkni­efni fyrir um 6 milljarða króna á ári. Lög­reglan á­ætlar að götu­verð­mæti fíkni­efnanna sem hald­lögð voru í vikunni séu 1,7 milljarðar.

Segir fundinn senda skilaboð

Helgi segir að blaða­manna­fundurinn þar sem þetta var til­kynnt hafi verið haldinn til að senda skila­boð, bæði til undir­heimanna og al­mennings, um að verið væri að taka þessi mál föstum tökum. Klóak­mælingar, rann­sóknir á net­verslun, verð­könnun SÁÁ og fleira, bendi hins vegar til að markaðurinn sé öflugur og gatið verði fyllt innan skamms.

„Reynslan af stórum hald­lagningum er­lendis er að þær hafa sára­lítil á­hrif á markaðinn. Það koma nýir aðilar inn á markaðinn til að fylla skarðið. Hér á Ís­landi koma oft sömu aðilar aftur inn á markaðinn þrátt fyrir þunga fangelsis­dóma,“ segir hann. Al­mennt séu um 10 prósent fíkni­efna hald­lögð.

Helgi Gunn­laugs­son, prófessor í af­brota­fræði við Há­skóla Ís­lands.
Fréttablaðið/Valgarður

„Það sem við sem sam­fé­lag þurfum að skoða er eftir­spurnin eftir vímu­efnum og hvernig hægt er að draga úr henni.“
Margeir Sveins­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, segir erfitt að segja til um hversu stór hluti af störfum lög­reglu fari í að takast á við fíkni­efna­mál. Það sé þó ekki stór hluti af heildinni.

Fíkniefnabrot næststærsti brotaflokkurinn

Sam­kvæmt nýjustu árs­skýrslu Ríkis­lög­reglu­stjóra, frá árinu 2019, voru fíkni­efna­brotin 2.160 af 14.305 sem lög­reglan hafði af­skipti af, um 15 prósent og næst­stærsti brota­flokkurinn.

Þetta er þó að­eins fjöldi mála og sýnir ekki vinnu­stundir bak við hvert mál. Ár­lega gefur lög­reglan upp hald­lagningar­tölur sem rokka mikið milli ára.

Sam­kvæmt nýjum tölum sitja 37,4 prósent ís­lenskra fanga inni fyrir fíkni­efna­brot, sem er næst­hæsta hlut­fall í Evrópu og um­tals­vert meira en í ná­granna­löndunum. Refsi­harkan í fíkni­efna­málum er því mikil á Ís­landi.

„Mark­miðið hlýtur alltaf að vera að berjast gegn því sem er ó­lög­legt hér á landi og er fólki til skaða,“ segir Margeir, um stefnu lög­reglunnar í fíkni­efna­málum. Hann segist þó gera sér grein fyrir að fíkni­efna­laust Ís­land sé ó­raun­hæft mark­mið.

„Hjá þeim sem eru vímu­efna­sjúk­lingar gæti orðið erfiðara að þreyja þorrann“

Í við­tali Frétta­blaðsins við Fjölni Sæ­munds­son, for­mann Lands­sam­bands lög­reglu­manna, í mars árið 2021, kom fram að þúsundir mála biðu rann­sóknar hjá Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu.

„Það getur tekið marga mánuði að rann­saka nauðgun. Ekki út af slóða­skap heldur af því að það vantar mann­skap,“ sagði Fjölnir.

„Við erum ekki að sinna þessu eins og áður“

Að­spurður segir Margeir lög­reglu­em­bættin hafa stjórn á því hvernig málum er for­gangs­raðað. Til dæmis hversu mikil á­hersla sé lögð á fíkni­efna­mál saman­borið við kyn­ferðis­brota­mál.

„Lög­reglu­stjóri leggur upp með hversu mikil á­hersla er lögð á fíkni­efna­mál,“ segir hann. Minni mann­skapur sé þó til staðar nú en fyrir tíu árum. „Við erum ekki að sinna þessu eins og áður, sem stafar af öðrum verk­efnum og fjár­skorti.“

Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra brást við hald­lagningunni á fimmtu­dags­kvöld með stöðu­upp­færslu á sam­fé­lags­miðlum. Þar sagði hann að bregðast þyrfti við skipu­lagðri glæpa­starf­semi.

„Við þurfum að fjölga í lög­reglunni, efla sam­starf á milli em­bætta, bæta tækja­kostinn og tryggja rann­sóknar­heimildir lög­reglu, sem er lík­lega það mikil­vægasta í sam­bandi við þennan breytta veru­leika,“ sagði hann.