Fíkniefnamarkaðurinn er mjög stór á Íslandi og ólíklegt er að sú haldlagning sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá í vikunni hafi mikil áhrif á markaðinn. Tímabundið gæti verð á fíkniefnum hækkað og eymd vímuefnanotenda aukist.
„Þetta er það stór haldlagning að hún gæti skapað tímabundna þurrð á markaðnum. Hjá þeim sem eru vímuefnasjúklingar gæti orðið erfiðara að þreyja þorrann,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Evrópusambandið reiknar með því að Íslendingar kaupi ólögleg fíkniefni fyrir um 6 milljarða króna á ári. Lögreglan áætlar að götuverðmæti fíkniefnanna sem haldlögð voru í vikunni séu 1,7 milljarðar.
Segir fundinn senda skilaboð
Helgi segir að blaðamannafundurinn þar sem þetta var tilkynnt hafi verið haldinn til að senda skilaboð, bæði til undirheimanna og almennings, um að verið væri að taka þessi mál föstum tökum. Klóakmælingar, rannsóknir á netverslun, verðkönnun SÁÁ og fleira, bendi hins vegar til að markaðurinn sé öflugur og gatið verði fyllt innan skamms.
„Reynslan af stórum haldlagningum erlendis er að þær hafa sáralítil áhrif á markaðinn. Það koma nýir aðilar inn á markaðinn til að fylla skarðið. Hér á Íslandi koma oft sömu aðilar aftur inn á markaðinn þrátt fyrir þunga fangelsisdóma,“ segir hann. Almennt séu um 10 prósent fíkniefna haldlögð.

„Það sem við sem samfélag þurfum að skoða er eftirspurnin eftir vímuefnum og hvernig hægt er að draga úr henni.“
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir erfitt að segja til um hversu stór hluti af störfum lögreglu fari í að takast á við fíkniefnamál. Það sé þó ekki stór hluti af heildinni.
Fíkniefnabrot næststærsti brotaflokkurinn
Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Ríkislögreglustjóra, frá árinu 2019, voru fíkniefnabrotin 2.160 af 14.305 sem lögreglan hafði afskipti af, um 15 prósent og næststærsti brotaflokkurinn.
Þetta er þó aðeins fjöldi mála og sýnir ekki vinnustundir bak við hvert mál. Árlega gefur lögreglan upp haldlagningartölur sem rokka mikið milli ára.
Samkvæmt nýjum tölum sitja 37,4 prósent íslenskra fanga inni fyrir fíkniefnabrot, sem er næsthæsta hlutfall í Evrópu og umtalsvert meira en í nágrannalöndunum. Refsiharkan í fíkniefnamálum er því mikil á Íslandi.
„Markmiðið hlýtur alltaf að vera að berjast gegn því sem er ólöglegt hér á landi og er fólki til skaða,“ segir Margeir, um stefnu lögreglunnar í fíkniefnamálum. Hann segist þó gera sér grein fyrir að fíkniefnalaust Ísland sé óraunhæft markmið.
„Hjá þeim sem eru vímuefnasjúklingar gæti orðið erfiðara að þreyja þorrann“
Í viðtali Fréttablaðsins við Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna, í mars árið 2021, kom fram að þúsundir mála biðu rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Það getur tekið marga mánuði að rannsaka nauðgun. Ekki út af slóðaskap heldur af því að það vantar mannskap,“ sagði Fjölnir.
„Við erum ekki að sinna þessu eins og áður“
Aðspurður segir Margeir lögregluembættin hafa stjórn á því hvernig málum er forgangsraðað. Til dæmis hversu mikil áhersla sé lögð á fíkniefnamál samanborið við kynferðisbrotamál.
„Lögreglustjóri leggur upp með hversu mikil áhersla er lögð á fíkniefnamál,“ segir hann. Minni mannskapur sé þó til staðar nú en fyrir tíu árum. „Við erum ekki að sinna þessu eins og áður, sem stafar af öðrum verkefnum og fjárskorti.“
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra brást við haldlagningunni á fimmtudagskvöld með stöðuuppfærslu á samfélagsmiðlum. Þar sagði hann að bregðast þyrfti við skipulagðri glæpastarfsemi.
„Við þurfum að fjölga í lögreglunni, efla samstarf á milli embætta, bæta tækjakostinn og tryggja rannsóknarheimildir lögreglu, sem er líklega það mikilvægasta í sambandi við þennan breytta veruleika,“ sagði hann.