Að­lögun þrettán barna í Leik­skóla Sel­tjarnar­ness sem átti að hefjast í lok ágúst og byrjun septem­ber var frestað ó­tíma­bundið nokkrum dögum fyrir fyrsta að­lögunar­dag í ágúst. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins standa for­eldrar barnanna nú frammi fyrir mikilli ó­vissu og vita ekki hve­nær börnin fá að byrja.

For­eldrar barnanna fengu tölvu­póst 14. júní síðast liðinn með dag­setningu um upp­haf að­lögunar barna þeirra, án allra fyrir­vara. Börnunum var skipt í þrjá hópa í að­lögun sem átti að hefjast 9. ágúst, 23. ágúst og 6. septem­ber. Fjórum dögum, þann 19. ágúst, áður er annar hópurinn átti að hefja að­lögun barst for­eldrum tölvu­póstur frá leik­skólanum þar sem fram kom að að­löguninni yrði frestað um ó­á­kveðin tíma vegna mann­eklu.

For­eldri furðar sig á vinnu­brögðum leik­skólans. Leik­skólinn hafi meðal annars sagt að það hafi verið ljóst í hvað stefndi strax í júní en þrátt fyrir það hafi aldrei þótt á­stæða til að til­kynna for­eldrum um vandann fyrr en nokkrum dögum fyrir fyrsta að­lögunar­dag.

Þá virðist sem viljinn til að leysa mann­ekluna frá júní til ágúst hafi verið lítill. For­eldrar höfðu ekki orðið varir við at­vinnu­aug­lýsingar á þessum tíma en eftir mikla leit hafi at­vinnu­aug­lýsing á vegum leik­skólans fundist inn á vef Sel­tjarnar­nes­bæjar. „Ef þú ert að leita af fólki þá aug­lýsir þú það ein­hvers staðar annars staðar en bara á heima­síðu bæjarins.“

Skipulagslega erfitt að dreifa álaginu

Fræðslu­stjóri Sel­tjarnar­nes­bæjar sagði á fundi við for­eldra þann 23. ágúst ekki hafa vitað af stöðunni fyrr og hafi óskað eftir því að for­eldrum yrði til­kynnt um málið strax.

Á fundinum hafi allir aðilar sam­mála um að börnin séu inn­rituð í leik­skólann. For­eldrar hafi óskað eftir því að jafn­ræði sé gætt á milli barnanna og annarra barna á leik­skólanum. Þau ættu rétt á vistun líkt og önnur börn og líf þeirra verði ó­stöðugt á meðan þau fái ekki inn. Þeim sé komið fyrir hjá að­stand­endum til að reyna brúa bilið svo for­eldrar geti stundað vinnu eða nám.

Niður­staða fundarins var að fræðslu­stjóri myndi ræða við leik­skóla­stjóra.

Síðan þá hafi lítið gerst. Fræðslu­stjórinn hafði sam­band við eitt for­eldri og tjáði því að það væri skipu­lags­lega erfitt að svo stöddu að láta mann­ekluna bitna á öllum inn­rituðum börnum jafnt, þetta væri stór leik­skóli.

Upplifa sig sem peð

For­eldrið, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir það hafa verið lengi vitað að leik­skólinn á Sel­tjarnar­nesi sé sprunginn. Það sjái það allir og að leik­skólinn vilji og þurfi stærra hús­næði. ,,Við upp­lifum okkur sem peð í því máli. Leik­skólinn sé að þrýsta á bæinn og noti okkur sem peð. Þetta er alla­vega eins og maður sér þetta.‘‘

For­eldrum barnanna hefur ekki enn verið tjáð hve­nær börnin geta hafið að­lögun. Þá séu upp­lýsingar frá leik­skólanum til for­eldra af skornum skammti og fyrir­spurnum for­eldra til bæjar­yfir­valda svarað stopult sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins.

Ómögulegt að gefa út dagsetningar

Baldur Páls­son, sviðs­stjóri fjöl­skyldusviðs Sel­tjarnar­nes­bæjar, segir leik­skóla­stjóra hafa sent upp­lýsinga­póst til for­eldra í síðustu viku. Það sé þó ekki hægt að gefa upp dag­setningar fyrir að­lögun þessara barna. ,,Við vitum alveg að það er beðið eftir henni með eftir­væntingu en við höfum ekki getað gefið hana út,“ segir Baldur.

Ráðningar séu í fullum gangi en ekki sé búið að ráða í allar stöður. „Þessi fjöldi ráðningar­sam­tala sem hefur verið tekinn á undan­förnum dögum skilar vonandi til okkar góðu fólki,“ segir Baldur. Einnig séu ein­hverjir starfs­menn að bæta á sig starfs­hlut­falli til að koma til móts við þá stöðu sem er uppi. Staðan fari batnandi, tvö börn af þessum þrettán muni hefja að­lögun á morgun.

Að­spurður segir Baldur að það hafi verið skoðað að dreifa á­laginu á aðra for­eldra leik­skólans. Það sé þó mjög stór og flókin að­gerð. „Við erum að vonast til að geta leyst þetta sem fyrst með ráðningum.“

Óþægileg og kostnaðarsöm staða fyrir foreldra

Karl Pétur Jóns­son, bæjar­full­trúi Við­reisnar á Sel­tjarnar­nesi, segir mönnunar­vanda koma upp á ári hverju.

„Við höfum vitað af því í mjög langan tíma að það er hreyfing á starfs­fólki leik­skólans á haustin. Það þarf yfir­leitt að manna 5 til 10 stöður. Ég held að það sjái það nú allir að það hefði nú verið mun æski­legra að leggja af stað í þann leið­angur að ráða fólk fyrr. Þá hefðum við ekki þurft að koma for­eldrum þessara þrettán barna í þá stöðu að geta ekki mætt í vinnu eða þurfa út­vega pössun með skömmum fyrir­vara. Þetta er bara mjög leiðin­legt mál,“ segir Karl.

Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi

Hann er von­góður um að málið leysist á næstu dögum. „Þetta heldur for­eldrum þessara 13 barna í mjög mikilli ó­vissu, sem er ó­þægi­leg og kostnaðar­söm fyrir þessa for­eldra og við hljótum að geta haldið fastar á hlutunum heldur en þetta í þjónustu við bæjar­búa.“

Í bókun sem Sam­fylkingin lagði á síðasta bæjar­stjórnar­fundi segir að bæjar­stjórnin þurfi að setjast niður og móta stefnu og að­gerðar­á­ætlun um hvernig koma eigi í veg fyrir að þessi staða sé sí­fellt að koma upp aftur og aftur.