„Þessar nýju reglur eru verri en maður vonaðist eftir en um leið betri en maður óttaðist. Við höfum núna meiri tíma til endurskipulagningar en í fyrra þegar það komu hertar samkomutakmarkanir á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina. Við getum fyrir vikið sagt að við munum halda Hinsegin daga en við þurfum að aðlaga hátíðina þessum nýju takmörkunum,“ segir Ásgeir Helgi Magnússon, formaður stjórnar Hinsegin daga, aðspurður hvaða áhrif nýjustu aðgerðir stjórnvalda hafi á hátíðina sem er á dagskrá í næsta mánuði.

„Við lærðum helling af síðasta ári og í vetur, meðal annars að það er ýmislegt hægt að gera þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Það er hægt að hólfaskipta leikhúsum í menningarviðburðum og halda fræðslufundi á streymi. Fyrir vikið munum við reyna að halda eins glæsilega hátíð og hægt er innan þess ramma sem okkur er úthlutað með þessum nýju reglum.“

Með tvö hundruð manna samkomutakmörkunum er ljóst að ekki verður hægt að halda gleðigönguna, hápunkt Hinsegin daganna, með sama hætti og tíðkaðist fyrir heimsfaraldurinn.

„Við könnumst alveg við þessa sviðsmynd sem sett var upp af stjórnvöldum en það sem mun særa mest er að gleðigangan fái ekki að fara niður götur miðbæjarins. Við munum leita leiða til að hún geti farið farið fram með öðrum hætti, meðal annars með notkun streymis­útsendingar.“