Embætti ríkislögreglustjóri segir að aðili, ótengdur rannsókn þeirra á hryðjuverkaógn, hafi orðið fyrir verulegum óþægindum vegna nafnbirtingar á fjölmiðli og myndbirtinga á samfélagsmiðlum.

„Viðkomandi ber svipað nafn og sá sem hefur verið nafngreindur. Sýnum aðgát í nærveru sálar, jafnt á samfélagsmiðlum sem annars staðar,“ segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Í frétt sem birtist á DV í dag er karlmaður nafngreindur og sagður vera einn sakborninganna. Nafni mannsins sem DV segir að sé einn sakborninganna, fann sig knúinn til að birta færslu á Facebook til að árétta að hann væri ekki tengdur hryðjuverkamálinu.

„Hæ, einhver misskilningur í gangi. Ef einhver sér frétt eða skilaboð að ég sé tengdur þessu hryðjuverkamáli þá er það samkvæmt DV einhver Sindri Snær Birgisson en ekki ég. Þið megið láta mig vita ef þið sjáið einhverjar færslur,“ skrifaði maðurinn í opinni færslu á Facebook.

Frá blaðamannafundi lögreglunnar um rannsókn á tilraun til hryðjuverka í vikunni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir og tveir þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um tilraun til hryðjuverka.

Lögreglan segist hafa komið í veg fyrir fjöldaárás yfirvofandi á næstu dögum gegn borgurum og stofnunum ríkisins. Talið er að skotmörk mannnanna hafi verið lögreglan sjálf en Morgun­blaðið greindi frá því í morgun að mennirnir hyggðust beina spjótum sínum að árs­há­tíð lög­reglu­manna og Al­þingi.

Lögreglan gerði upptæka tugi heimagerðra vopna eftir húsleit á níu stöðum. Hluti vopnanna voru þrívíddarprentuð skotvopn og hálfsjálfvirkar byssur.