Búist er við því að bæði Finnar og Svíar sæki um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) á næstunni. Bæði lönd eru mjög uggandi um þjóðaröryggi sitt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur sagt að Ísland muni ljá Finnum og Svíum algjöran stuðning ef þeir sækja um aðild í NATO og telur að bandalagið muni breytast til batnaðar með inngöngu þeirra.

„Þarna er um að ræða okkar nánustu nágranna- og vinaþjóðir sem við eigum í mjög miklu samstarfi, samskiptum og tengslum við á öllum sviðum. Að fá þau tvö ríki inn í Atlantshafsbandalagið, það myndi ég segja að styrki okkur,“ segir Þórdís Kolbrún.

Fyrirhuguð umsókn Finna og Svía um aðild að NATO gæti haft víðtæk áhrif á þjóðaröryggismál í Evrópu, þar á meðal á Íslandi. Fréttablaðið greindi frá því í gær að netárásir á neyðarlínuna jukust til muna í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þórdís Kolbrún segir Ísland þó ekki vera berskjaldaðra en önnur ríki.

„Auðvitað eru ógnirnar misjafnar. Erum við að tala um beina hernaðarógn, erum við að tala um þessar fjölþátta ógnir? Netárásir eru vaxandi og ríki eru langflest, ef ekki öll, að byggja upp sína þekkingu og getu og við erum svo sannarlega að því líka.“

Rússar eru mjög andvígir NATO-umleitunum Finna og Svía og líta á mögulega inngöngu í sambandið sem beina ógn við þjóðaröryggi sitt. Dmitry Peskov, fjölmiðlafulltrúi Kremlar, sagði Finna taka þátt í fjandsamlegum aðgerðum gegn Rússlandi sem myndu kalla á samræmd viðbrögð.

„Því meira sem við ætlum að gera úr möguleikanum á því að Rússar grípi til ráðstafana, því betur ættum við að skilja hvers vegna Finnar og Svíar vilja ganga í bandalagið,“ segir Þórdís Kolbrún.

Ein af mögulegum refsiaðgerðum Rússa er sú að loka fyrir sölu rafmagns og náttúrulegs gass. Greint var frá því í gær að rússnesk fyrirtæki séu að íhuga að stöðva útflutning orku til Finnlands. Rafmagn frá Rússlandi telur um 10 prósent af orkunotkun Finna og gas um 5 prósent. Finnsku orkufyrirtækin Fin­grid og Gasgrid segja þó enga hættu á að Finnar líði orkuskort ef verður af hótunum Rússa.

Gangi Finnar og Svíar í NATO gæti það verið einn stærsti viðsnúningur í öryggis- og varnarmálum Evrópu í áratugi, en bæði Finnland og Svíþjóð hafa verið hernaðarlega hlutlaus síðan á tímum kalda stríðsins. Spurð um hvort þessar vendingar gefi til kynna að úti sé um frið í Evrópu segir Þórdís Kolbrún:

„Ég myndi ekki segja það. En það sem skrifað var um í sögubókunum að væri lokið, því var augljóslega ekki lokið. Það er stríð í Evrópu sem er í fullum gangi og ekki liggur fyrir með hvaða hætti, hvenær eða hvernig því muni ljúka, hvort það muni breiðast út eða ekki.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fimmtudag að umsókn Finna og Svía yrði afgreidd hratt og örugglega en talið er að Tyrkir gætu mögulega orðið þrándur í götu miðað við ummæli Recep Erdogan Tyrklandsforseta í gær. Hann kvaðst ekki líta umsókn Svía og Finna jákvæðum augum og sagði: „Norðurlöndin eru líkt og híbýli hryðjuverkahópa sem hafast jafnvel við á löggjafarþingum þeirra“. Samkvæmt reglum NATO þurfa öll aðildarríki að samþykkja nýjar umsóknir, en Tyrkland hefur verið meðlimur bandalagsins síðan 1952.

Ísland er eitt af stofnríkjum NATO og hefur átt sæti við borðið síðan 1949. Þórdís Kolbrún segir Ísland gegna mikilvægu hlutverki í bandalaginu þrátt fyrir smæð sína.

„Það er allt breytt og mér finnst skipta máli að við tölum hátt og skýrt og segjum það sem við meinum og meinum það sem við segjum. Séum óhrædd við að taka afstöðu sem fullvalda sjálfstætt ríki með sterka utanríkisstefnu og skýra sýn.“

Fréttablaðið/Graphic News