Utan­ríkis­ráð­herra mælir í dag fyrir til­lögu til þings­á­lyktunar um stað­festingu samninga við Finn­land og Sví­þjóð um aðild að At­lands­hafs­banda­laginu. Þingfundur hefst klukkan þrjú og að loknum óundirbúnum fyrirspurnum og atkvæðagreiðslu um nokkur mál, er gert ráð fyrir fyrri umræðu um málið. Að henni lokið verður málinu vísað til meðferðar í utanríkismálanefnd.

Í greinar­gerð með til­lögunni kemur fram að óskað sé eftir því að Al­þingi á­lykti um heimild ríkis­stjórnar til full­gildingar áður en endan­leg undir­ritun samninganna fer fram, vegna mikil­vægis þess að samningarnir verði full­giltir eins fljótt og kostur er eftir form­lega undir­ritun þeirra en það er frá­vik frá hefð­bundinni máls­með­ferð fyrir Al­þingi vegna þjóð­réttar­samninga.

Fyrir­huguð aðild Sví­þjóðar og Finn­lands að NATO hefur fengið mikinn stuðning í Evrópu enda hefur hún bæði hernaðar­legt og stjórn­mála­legt mikil­vægi fyrir banda­lags­ríkin. Í Eystra­saltinu liggur fjórðungur rúss­neska flotans en með inn­göngu Finna og Svía yrði hafið að megninu til yfir­ráða­svæði NATO.

Í greinar­gerð með til­lögunni er saga At­lands­hafs­banda­lagsins stutt­lega rakin og yfir­lit gefið um hvernig inn­göngu nýrra ríkja í NATO hefur verið háttað. Nýjasta aðildar­ríkið, Norður-Makedónía sótti um aðild í júlí 2018. Samningur um inn­gönguna var undir­ritaður í febrúar 2019 og Norður-Makedónía varð form­legur aðili að banda­laginu 27. mars 2020, tæpum tveimur árum eftir um­sókn þeirra.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tók á móti Sauli Niinistö, forseta Finnlands, og Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Hvíta húsinu stuttu eftir aðildarumsóknir ríkjanna að NATO.
Mynd/EPA

Fjallað er um á­hrif inn­rásar Rúss­lands í Úkraínu sem hófst 24. Febrúar síðast­liðinn og hvernig hún hefur hún dregið fram sam­stöðu vest­rænna ríkja og reynt á það fyrir­komu­lag sem öryggis- og varnar­mál Evrópu hafa byggst á undan­farna ára­tugi.

Inn­rásin er talin raun­veru­leg ógn við öryggi í Evrópu og er vísað til þess að Finn­land og Sví­þjóð hafi um ára­bil verið eitt nánasta sam­starfs­ríki NATO en þess getið að slík sam­starfs­ríki falli þó ekki undir þá sam­eigin­legu öryggis­tryggingu sem felst í aðild.

Fram kemur að Finnar og Svíar hafi til þessa viljað standa utan hernaðar­banda­laga. Nú hafi bæði ríkin hins vegar endur­skoðað af­stöðu sína.

„Vegna um­fangs­mikils sam­starfs Finn­lands, Sví­þjóðar og banda­lags­ríkja At­lants­hafs­banda­lagsins um ára­bil eru herir og inn­viðir landanna tveggja nú þegar að mestu leyti sam­hæfðir herjum og varnar­getu banda­lags­ríkja At­lants­hafs­banda­lagsins og getur aðildar­ferlið því tekið mun skemmri tíma en hefur verið þegar nýjum ríkjum er boðin aðild að banda­laginu,“ segir í greinar­gerðinni og er þar rakið aðildar­ferlið hingað til:

„Finn­land og Sví­þjóð hafa sótt um að gerast banda­lags­ríki með form­legum hætti með bréfi til fram­kvæmda­stjóra At­lants­hafs­banda­lagsins, að undan­gengnu víð­tæku sam­ráðs­ferli og þing­legri með­ferð innan hvors ríkis um sig. Í kjöl­farið mun fasta­ráð banda­lagsins heimila al­þjóða­starfs­liði að hefja við­ræður og frá­gang ýmissa þátta aðildar, svo og ganga frá texta aðildar­samninganna. Texti við­bótar­samninga vegna aðildar Finn­lands og Sví­þjóðar liggja því ekki enn fyrir en við­bótar­samningar við Norður-At­lants­hafs­samninginn um aðild nýrra ríkja hafa saman­staðið af þremur greinum og verið sam­hljóða. Með þessari þings­á­lyktunar­til­lögu er því birt snið­mát sem sýnir hvernig við­bótar­samningar vegna aðildar Finn­lands og Sví­þjóðar kæmu til með að líta út, í sam­ræmi við fyrri fram­kvæmd. Ríkin munu sjálf greiða kostnað við að­lögun eigin varna að sam­ræmdu varnar­kerfi banda­lagsins og er ekki gert ráð fyrir að nú­verandi aðildar­ríki þurfi að breyta eigin varnar­á­ætlunum, auka út­gjöld til varnar­mála eða bera á nokkurn hátt við­bótar­kostnað af inn­göngu Svía og Finna, um­fram þann aukna við­búnað sem breytt öryggis­um­hverfi kallar á.“

Hér má skoða stjórnar­til­lögu ráð­herra en búast má við að mælt verði fyrir til­lögunni að loknum ó­undir­búnum fyrir­spurnum og at­kvæða­greiðslum á þing­fundi sem hefst klukkan þrjú í dag.