„Það er ekkert sem rennir stoðum undir þá kenningu að ískaldar launafrystingar þvert á línuna séu rétta leiðin út úr kreppunni, þvert á móti,“ sagði Drífa Snædal í setningarræðu 44. þings Alþýðusambands Íslands sem hófst í morgun. Hún sagði að þær ákvarðanir sem teknar séu á krepputímum móti framtíðina og það sé hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að sækja fram fyrri hönd almennings í landinu og tryggja að slíkar ákvarðanir séu í þágu allra.

„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að atvinnurekendur hafa þrýst á um launalækkanir eða kjaraskerðingar með vísan til ástandsins. Þetta sjónarmið hefur fengið hljómgrunn í fjölmiðlum og stjórnmálum og víðar í samfélaginu undir þeim formerkjum að þegar þrengi að þá verði allir að gefa eitthvað eftir,“ sagði Drífa í ræðu sinni.

Við þessu sé tvennt að segja. Annars vegar hafi launafólk þegar tekið gríðarlegan skell í kreppunni, bæði með auknu atvinnuleysi og kjaraskerðingum. Hins vegar sé aðhaldsstefna ekki eingöngu gagnslaus á krepputímum heldur beinlínis skaðleg. Ekkert renni stoðum undir þá kenningu að launafrystingar á línuna séu rétta leiðin, heldur þvert á móti.

„Ef við notum sömu hagfræðina og hefur verið alls ráðandi síðustu áratugi og sumir segja að byggi á jafnvísindalegum grunni og sjálft þyngdarlögmálið þá munum við rata á hættulega braut. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú stigið fram og ráðlagt ríkjum að ráðast ekki í aðhaldsaðgerðir en að gera fremur allt til að tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum. Því þau ríki sem völdu niðurskurð út úr fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug síðan hafa komið hryllilega illa út úr því, bæði heilsufarslega og efnahagslega.“

Drífa staldraði við uppnám um lífskjarasamninginn sem skapaðist í síðasta mánuði. „Þá voru það ekki við sem sköpuðum óvissu og ófrið. Það voru atvinnurekendur sem ætluðu að nýta ferðina til að knýja á um launalækkanir eða skerðingar. Við bárum gæfu til þess að standa saman gegn þrýstingi og atvinnurekendur urðu uppvísir að ótrúlegum vinnubrögðum í einhverskonar störukeppni sem stóð þar til stjórnvöld stigu inn og skáru atvinnurekendur úr snöru sem þeir hengdu sjálfir.“

Sérhagsmunaöflin séu alltaf tilbúin að stökkva á tækifæri til að hafa afkomuöryggi af fólki. „Í þessu landi eru beinlínis öfl sem vilja losna við lágmarksvernd launafólks, sem telja atvinnuleysistryggingar ýta undir leti og að fólki sé fullur sómi sýndur með því að ætla því innan við 300 þúsund krónur til mánaðarlegrar framfærslu. Og þetta er einmitt hættan þegar harðnar á dalnum, að réttindi verði gefin eftir og ójöfnuður aukist. Það eru margir sem vilja nýta ferðina og kreppur hafa í áranna rás aukið misrétti.“

Drífa þakkaði fyrir að verkalýðshreyfingin hafi staðið sameinuð. Mat hennar hefði verið að farsælast væri fyrir bæði launafólk og samfélagið allt, að halda frið á vinnumarkaði og standa við kjarasamninga, sem gerðir voru á óvissutímum, eftir fall Wow-air og í óvissu efnahagsástandi.

Um verkefni hreyfingarinnar framundan nefndi Drífa baráttu fyrir hækkun atvinnuleysisbóta og mikilvægi þess að kerfin sem barist hafi verið fyrir, virki þegar á reyni.


Pissum ekki í skóinn okkar

„Til lengri tíma skulum við muna það að þegar einhver býður einfaldar lausnir eins og að selja ríkiseignir eða „nýta einkaframtakið“ í heilbrigðisþjónustu þá skulum við ekki pissa í skóinn okkar. Þessi öfl eru komin á fullt skrið en það alversta sem við getum gert núna er að arðvæða okkar grunnstoðir. Þannig eykst misréttið og ójöfnuðurinn, þannig gerist það að fólk þarf að kaupa heilbrigði og menntun og aðeins þau sem hafa efni á því njóta. Þetta er hin stóra barátta framundan, að vernda það sem við höfum byggt upp og láta ekki eina kreppu brjóta það niður.“ Sagði Drífa.

Félags- og barnamálaráðherra ávarpaði einnig þingið í morgun. Líkt og í setningarræðu forseta ASÍ, voru heimsfaraldurinn og áhrif hans ráðherranum efst í huga. Nú yrði að horfast í augu við að áhrifin yrðu langvinnari en búist var við í fyrstu.

Fjöldaatvinnuleysi mun dragast á langinn

„Óvissuástandið sem ríkt hefur á vinnumarkaði undanfarna mánuði mun því vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum því miður gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn,“ sagði Ásmundur Einar Daðason í ávarpi sínu.

Hann sagði aðgerðir stjórnvalda því miður ekki breyta því að atvinnuleysistölur stefni í eitthvað sem aldrei hafi sést áður á landinu og algert hrun í ákveðnum atvinnugreinum blasi við.

Innflytjendur í viðkvæmri stöðu

„Í þessu ástandi öllu verðum við í sameiningu að standa vörð um þá sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti því það er ávinningur samfélagsins í heild þegar upp verður staðið,“ sagði ráðherra og nefndi innflytjendur sérstaklega í því sambandi. „Innflytjendur eru um 14 prósent af samfélaginu, um 19 prósent af þátttakendum á vinnumarkaði og um 40 prósent atvinnulausra eins og staðan er í dag.“

Ásmundur boðaði einnig frumvarp sem ætlað er að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. „Þá er á lokametrunum vinna við gerð frumvarps sem meðal annars er ætlað að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði en í frumvarpinu eru breytingar sem í mínum huga geta orðið til góðs fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni og eiga eflaust eftir að hjálpa okkur mikið í baráttunni við ólíðandi brot á vinnumarkaði hvaða nöfnum sem þau nefnast.“

Þá er á lokametrunum vinna við gerð frumvarps sem meðal annars er ætlað að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Ásmundur lagði áherslu á að auka þyrfti virkni þeirra sem eigi undir högg að sækja á vinnumarkaði og koma í veg fyrir einangrun. Gera þurfi fólki auðveldara að sækja nám án þess að missa rétt til atvinnuleysisbóta.

Þá fór ráðherra yfir nokkra þætti sem mikilvægt væri að koma til framkvæmda í þágu bætts fjölskyldulífs, nefndi hann lengingu fæðingarorlofs og þætti sem komið er inn á í nýjum kjarasamningum eins og styttingu vinnuvikunnar.

Forseti og varaforsetar kjörnir í dag

Þingið stendur fram eftir degi og meðal málefna sem á að ræða eru öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni, réttindi og félagsleg vernd, menntun til framtíðar og réttlátt skattkerfi. Þá verður einnig kosinn forseti ASÍ, í samræmi við lög félagsins auk varaforseta og fulltrúa í miðstjórn. Snorri Már Skúlason, upplýsingafulltrúi ASÍ segir að niðurstöður kosninga til embætta liggi fyrir síðdegis.

Fyrir þinginu liggur einnig tillaga um fjölgun varaforseta en meðal frambjóðenda í slíkt embætti er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.  Drífa er hins vegar ein í framboði til forseta og verður því endurkjörin.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR hefur oft verið gagnrýninn á forystu ASÍ. Hann gefur hins vegar kost á sér til varaforseta og vísar til mikilvægis þess að þétta raðir verkalýðshreyfingarinnar.