Flugeldar og eftirlíkingar skotvopnum fundust í fraktflugvél sem nauðlenti á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar um klukkan 23 í gærkvöldi.

Aðgerðir lögreglunnar á Suðurnesjum og sprengjusveitar ríkislögreglustjóra stóðu yfir í alla nótt en við leit fundust engin sprengiefni. Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli og þurfti að rýma um hundað metra radíus í kringum vélina á meðan aðgerðum stóð eftir að áhöfn yfirgaf vélina.

Hafði áhrif á fimm vélar

Fraktflugvélin tilheyrir UPS en vélin var á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum þegar hótunin barst. Fimm flugvélar þurftu að lenda á varaflugvöllum að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Tvær vélar lentu á Egilstaðaflugvelli, ein frá Wizz og önnur frá Transavia. Vél frá Lufthansa lenti í Glasgow, ein vél frá Play lenti á Akureyri og önnur í Edinborg. Allar fjórar vélar hafa nú lent á Íslandi, sú síðasta frá Lufthansa sem lenti nú rétt í þessu.