„Hjá okkur verða aðeins gerðar bráðaaðgerðir sem þola alls ekki átta vikna bið,“ segir Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Læknastöðvarinnar. Þar eru eingöngu framkvæmdar bæklunar-aðgerðir. „Það er einn skurðdagur hjá okkur áætlaður fyrir páska. Læknarnir eru að fara yfir lista yfir sjúklinga og meta hvað má alls ekki bíða.“

Á sunnudaginn féllst Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á erindi Landlæknis um að öllum valkvæðum skurðaðgerðum verði hætt frá þessari viku til 31. maí næstkomandi. Á þetta bæði við um aðgerðir á sjúkrastofnunum sem og hjá einkaaðilum.

Fram kom í tilkynningu embættisins að það sé liður í því að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna til að hægt sé að sinna sjúklingum með COVID-19.

„Er þá annars vegar horft til þess að draga úr smithættu og hins vegar að afstýra hugsanlegum sjúkrahúsinnlögnum sem geta fylgt sumum þessara aðgerða sem ákveðið hefur verið að fresta,“ segir í tilkynningu embættisins.

Einstaklingur greindist með veiruna sem veldur COVID-19 eftir að viðkomandi var í meðferð hjá Klíníkinni. Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis gátu starfsmenn á Klíníkinni ekki vitað að þessi hætta væri fyrir hendi þegar viðkomandi var þar til meðferðar. Ekki náðist í Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Klíníkurinnar, við vinnslu fréttarinnar.

SAXoPicture-0729DD18-936266897.jpg

Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Læknastöðvarinnar

Dagný segir að starf Læknastöðvarinnar leggist niður að mestu fram í júní. Er viðbúið að biðlistar komi til með að lengjast.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur þegar við getum opnað aftur,“ segir Dagný. „Auðvitað mun þetta koma niður á okkar sjúklingum. Þá má eitthvað bíða og við erum alltaf tilbúin að leggja hönd á plóg.“

Uppi hafa verið hugmyndir um að einkastofur bjóði fram aðstoð sína til að létta undir með Landspítalanum.

„Því hefur verið komið á framfæri við yfirvöld að við séum tilbúin að opna okkar starfsstöðvar til þess að aðstoða. Það yrði þá hvað sem hentaði best. Okkar læknar gætu létt undir, við erum til í að skoða allt þegar kallið kemur,“ segir Dagný. Þetta komi ekki á óvart, því það sama hafi verið að gerast í nágrannalöndum okkar

„Þegar upp kemur sýkingartilfelli þarf viðkomandi að leggjast inn á Landspítalann. Hjá okkur eru þau afar fá en ef það kæmi upp sýking þá myndi það auka álagið á starfsemina þar, það viljum við ekki,“ segir Dagný.